Leikverkið um Gísla á Uppsölum hefur farið sigurför um landið enda er hér á ferð áhrifamikið verk um einstakan mann. Nú verður Gísli loksins sýndur á Dalvík. Sýnt verður í hinu frábæra menningarhúsi Berg.
Miðasölusími: 891 7025
Miðaverð: 4.000.-
Gísli á Uppsölum er einstakt leikverk um einstakan mann. Einn stærsti viðburður íslenskrar sjónvarpssögu er Stiklu þáttur Ómars Ragnarssonar um einbúann Gísla Oktavíus Gíslason. Enn er Gísli landanum kær og hugleikinn. Hér er á ferðinni áhrifamikil sýning sem hefur hrifið áhorfendur líkt og saga söguhetjunnar.
Höfundar eru þeir Þröstur Leó Gunnarsson og Elfar Logi Hannesson, sá fyrrnefndi leikstýrir en hinn síðarnefndi er í hlutverki einbúans. Tónlist er eftir ljúfmennið Svavar Knút.
Orð gagnrýnenda:
Morgunblaðið gefur sýningunni 4 stjörnur
,,Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.
Það er hlýja og heiðarleiki í túlkun Kómedíuleikhússins á lífi þessa fræga nærsveitunga. Leikhúsaðferðir eru valdar af kostgæfni og þeim beitt af öryggi. Útkoman er falleg og snertir mann. Þannig á það að vera.
Morgunblaðið - Þorgeir Tryggvason
,,Elfar Logi er einstaklega sannfærandi í hlutverki Gísla og málar upp mynd af manninum af virðingu.
Einleikurinn um Gísla á Uppsölum er næmt og fallegt verk sem snertir við áhorfendum. Viðfangsefninu er sýnd virðing og verður til þess að Gísli fær að ferðast um landið einsog hann hafði sjálfur viljað."
Víðsjá Rás eitt - Halla Þórlaug Óskarsdóttir
,,Kómedíuleikhúsið hefur á undanförnum árum unnið mikilvægt þrekvirki þegar kemur að því að efla og lífga menningu, ekki einasta á landsbyggðinni heldur á landinu öllu.
Elfar Logi hvílir ákaflega vel og fallega í karakter Gísla á Uppsölum sem og hverju andartaki sýningarinnar. Lögn hans á karakter Gísla gengur fullkomlega upp í hverju smáatriði og í heild er leikur hans unaðsleg stúdía í list leikarans, öll hans vinna ber vott um vandaða vinnu, heiðarleika og einlægni."
Kvennablaðið - Jakob S. Jónsson