Útikennsla og fleira

Útikennsla og fleira

Skólaárið fer vel af stað í Árskógarskóla enda góður hópur nemenda og starfsfólks. Skólinn leggur metnað sinn í fjölbreytta kennsluhætti og að námsaðstæður úti og inni séu sem fjölbreyttastar, uppbyggilegar, skapandi og örvandi fyrir nemendur á leik- og grunnskólastigi. Íþróttakennari (Helena) kennir til að mynda íþróttir/sund tvisvar í viku á leikskólastigi sem og á grunnskólastigi. Í upphafi skólaárs eru nemendur á Kötlukoti í útiíþróttum þar sem t.d. er blandað saman hreyfingu og talnaskilningsæfingum eins og sjá má á myndunum. Nemendur grunnskólastigs eru í sundi fram í október en einnig elsta stig leikskólastigs, í vor er svo aftur sundkennsla en yfir háveturinn eru inniíþróttir. Útivera er mikil og alla daga, útikennsla er eitt af markmiðum skólans og á miðvikudögum er 1.-4. bekkur með útiskóla á stundaskránni. Í dag fóru nemendur í Brúarhvammsreit þar sem skýli var gert og tínd sprek og greinar til þess að nota í útieldun í næstu viku (vefja deig og grilla). Einnig er búið að rannsaka töluvert af plöntum enda plöntuþema nýbyrjað. Nemendur læra sem sagt bæði inni og úti, í bókum og án bóka, spjaldtölvum, borðtölvum, ýmsum skapandi efnivið, ein og sér eða í hóp, þvert á árganga og skólastig. Starfsfólk skólans kemur sem ein heild að uppeldi og menntun hvers barns. Vertu velkomin í heimsókn og að kynna þér skólann okkar, tökum vel á móti þér og þínum. Hér eru nokkrar myndir úr starfinu, fleiri myndir í myndasafni.