Skólaþing um sjálfbærni 30. apríl 2014

Næsta skólaþing verður 30. apríl. Þá tökum við fyrir einn sex grunnþátta menntunar Sjálfbærni sem snýst um að hugsa um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Skólaþing er fastur liður að hausti og vori í Árskógarskóla og vinnan með grunnþætti menntunar er hluti af innleiðingu nýrrar aðalnámskrár. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.

Í Árskógarskóla er unnið að sjálfbærni á ýmsan hátt, meðal annars með:

Félagslegri mótun Uppbyggingarstefnunnar, Grænfánaverkefnum svo sem flokkun, endurvinnslu, umhverfisvitund og umhverfissáttmála, gróðursetningu trjáa, uppskeru rabbarbara, útikennslu og margt fleira.

Sjálfbærni snýst um umhverfi, ábyrgð, virðingu og lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti í nútíð og framtíð. Í sjálfbærnimenntun er lögð áhersla á skilning á þeim takmörkunum sem vistkerfi jarðar setur manninum, jöfnuð innan og milli kynslóða, skynsamlega nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Forsenda fyrir sjálfbæru samfélagi eru virkir borgarar sem eru meðvitaðir um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart þessum þáttum.

Efnahagskerfi samfélaga skipa stórt hlutverk þegar kemur að skynsamlegri nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Þannig er mikilvægt að efnahagsvöxtur byggi hvorki á, né leiði til, óhóflegs ágangs á náttúruna. Framleiðsla og neysla eru órjúfanlegir þættir samfélags og um leið efnahags hvers einstaklings. Skilningur á eigin vistspori, vistspori samfélaga og þjóða stuðlar að sjálfbærri þróun og hófsemi.

Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu.