Eitt af markmiðum Árskógarskóla er að leita sífellt leiða til að færa nám, leik og kennslu út í náttúruna. Það merkir að hluti kennslunnar er fluttur út í nánasta umhverfi skólans og reglulega eru unnin verkefni utan veggja skólans. Útiskóli gefur börnum tækifæri til að nota öll skilningarvit sín og fá persónulega og beina reynslu af raunveruleikanum. Árskógarskóli vill verða skóli sem gefur hverju barni tækifæri til að þroskast og leika sér af sjálfsdáðum, finna til forvitni, ímyndunar, ánægjulegrar reynslu og samkenndar. Útiskóli þýðir samþættingu í kennslu þar sem athafnir úti og inni eru í meira samhengi en í kennslustofunni því börn læra um raunveruleikann í raunveruleikanum, þ.e. um náttúruna í náttúrunni, um samfélagið í samfélaginu og um sitt nánasta umhverfi í sínu nánasta umhverfi.

 

Markmið:
  • að njóta útivistar og fjölbreytileika náttúrunnar
  • að börnin upplifi fjölbreytileika íslenskrar veðráttu
  • að börn öðlist aukinn styrk, þol og þor
  • að auka andlega og líkamlega heilsu
  • að efla þekkingu á nánasta umhverfi, náttúru og vísindum
 
Leiðir:
  • með rannsóknum
  • með samræðum, lestri og tónlist
  • með sköpun
  • með upplifunum og beinni reynslu
  • með ferðum í náttúrunni