Saga skólans

Árskógarskóli

Árskógarskóli tók til starfa 1. ágúst 2012 og var settur formlega í fyrsta sinn 7. september. Skólinn er leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til og með 7. bekk grunnskóla.

Saga Árskógarskóla

Á fyrstu áratugum aldarinnar var skólinn á Árskógssandi, í húsi sem norskir síldveiðimenn höfðu reist þar og gekk undir nafninu Norska húsið. Þar var kennt í stórum sal sem jafnvel þótti of stór því erfitt var að kynda hann upp.

Gamla skólahúsið, Árskógur, var byggt á árunum 1937 - 1942 og þjónaði bæði sem skóli og félagsheimili sveitarinnar upp frá því. Fyrst var kennt þar 26. október 1938. Sérstakt skólahús fyrir Árskógarskóla var fyrst byggt á árunum 1966 - 1967 og var í upphafi heimavist og kennaraíbúð á efri hæð en tvær kennslustofur niðri. Sumarið 1998 reis 220 fermetra viðbygging við skólann og var hún tekin í notkun í febrúar 1999.

1971 var byggður skólastjórabústaður norðan skólans. Hann hýsti  leikskóla sveitarinnar, Leikbæ frá árinu 1990, þar til hann og grunnskólinn sameinuðust í ágúst 2012.

Árið 1976 var gerð sundlaug vestan félagsheimilisins og útbúnir búningsklefar í kjallaranum.

Árin 1992-1994 voru gerðar miklar endurbætur og breytingar á félagsheimilinu og það fært til núverandi horfs. Byggt var anddyri, salurinn stækkaður ofl.

Leikskólinn Leikbær var stofnaður 19. september 1985 og var fyrst til húsa í kennaraíbúðinni í Árskógarskóla (sem var vinnuaðstaða kennara grunnskólans til ársins 2012). Þann 13. júní 1990 flutti leikskólinn í skólastjórabústaðinn. Árið 2003 var húsnæðinu breytt þannig að það hentaði betur starfseminni.

Í apríl 2012 hófust framkvæmdir við eldri hluta (syðri hluta) grunnskólans þar sem byggt var 50 fermetra anddyri fyrir leikskólabörn, sett upp lyfta og inngangur fyrir starfsfólk. Innviðir gamla hlutans voru endurnýjaðir með þarfir nýs samþætts leik- og grunnskóla í huga. Vinnuaðstaða og kaffistofa starfsmanna færð niður og svæði barna á efri hæð. Framkvæmdum lauk haustið 2012 er nýr Árskógarskóli tók til starfa, samþættur leik- og grunnskóli til og með 7. bekk grunnskóla. Fyrsta skólaárið voru 45 nemendur í skólanum, 20 á leikskólastigi og 25 á grunnskólastigi. Starfsmenn voru 14 í um 10 stöðugildum.

Árskógarskóli, leik- og grunnskóli 2016

Árskógarskóli, leik- og grunnskóli

 

 Árskógur Dalvíkurbyggð