Föstudaginn 12. apríl 2013 var haldið skólaþing í Árskógarskóla. Alla vikuna unnu nemendur verkefni um "skólann minn" með það að markmiði að koma með tillögur um hvað hafi gengið vel þennan fyrsta vetur nýs skóla, hvað má bæta, hvað vantar af námsgögnum eða í námsumhverfið og svo framvegis.

Einn af grunnþáttum menntunar er einmitt Lýðræði og mannréttindi og var þetta þema í þeim anda. Markmiðið var að nemendur hefðu áhrif á skólann sinn og þær ákvarðanir sem eru teknar, enda mikilvægt að raddir nemenda og skoðanir séu virtar. Lýðræði snýst ekki um að sigra heldur um að taka þátt, það snýst ekki um samkeppni heldur um samvinnu. Og ef það á að vera réttlátt þá þurfa allir að hafa jafna möguleika til þátttöku þrátt fyrir að búa yfir misjöfnum burðum til þátttöku.

Unnið var í hópum, paravinnu, einstaklingsvinnu þar sem allir fundu sinn stað. Afurðin var svo kynning á fjölbreyttum verkefnum á skólaþingi m.a. líkan af skólanum og umhverfi, veggspjöld, glærukynningar. Nemendur lögðu sig virkilega fram og þessar upplýsingar og tillögur verða auðvitað nýttar við áframhaldandi mótun skólans okkar. Myndir af veggspjöldum og líkönum og fullt af öðrum er að finna í myndasafni af undirbúningi og þinginu sjálfu.

Glærur sem nemendur unnu er hægt að skoða hér: Árskógarskóli nú og fyrr, Samskipti og félagslíf, Útikennsla og umhverfi, Hlutir sem við myndum vilja, Námið okkar.

Skólaþingið hófst og endaði á Vinalaginu sem var samið í haust fyrir 5.-7. bekk en það var Kristján Stefánsson frá Gilhaga sem samdi textann við lagið: Komdu og skoðaðu í kistuna mína. Textinn þykir svo góður og innihaldsríkur og í anda þess samfélags sem við erum að móta í Árskógarskóla að skólaþingið samþykkti að Vinalagið yrði hér eftir lag skólans! Nú er bara að læra textann!