Þann 12. nóvember 2014 var haldið skólaþing hvað varðar grunnþátt menntunar, heilbrigði og velferð. Nemendur unnu að ýmsum verkefnum dagana á undan og söfnuðu saman annarri vinnu sem tengist grunnþættinum.

Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra (Aðalnámskrár leik,- grunn og framhaldsskóla, 2011).

Í Árskógarskóla er meðal annars stuðlað að heilbrigði og velferð með:

 • Góðu mötuneyti (fyrir leik- og grunnskólanemendur) og uppskriftum með áherslu á fjölbreytta og holla fæðu
 • Mögulegri mjólkur- og ávaxtaáskrift grunnskólabarna
 • Skýrum reglum um hollt nesti nemenda
 • Áherslu á vatnsdrykkju
 • Dans- og tónlistarkennslu
 • Íþrótta- og sundkennslu
 • Útiveru, útikennslu og hreyfingu í hreinu lofti
 • Uppbyggingarstefnunni sem á að auka andlega og félagslega vellíðan og efla góð samskipti
 • Fræðslu, ráðgjöf og eftirliti skólahjúkrunarfræðings og námsráðgjafa
 • Gæðastundum þar sem allur skólinn kemur saman
 • Samvinnu skólastiganna og yfirsýn um nám og þroska nemenda allan skólaferilinn
 • Verkum nemenda sem eru sýnileg og virt til þess að auka og efla sjálfsmynd þeirra
 • Umhyggju og virðingu
 • Samvinnu við foreldra í ýmsum verkefnum svo sem jólaföndri, árshátíð, vorhátíð og aðkomu að vettvangsferðum og ýmissi fræðslu