- Árskógarskóli
- 1. - 7. bekkur
- Kötlukot
- Foreldrar
- Stoðþjónusta
- Myndir
Heilsuvernd grunnskólabarna
Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Heilsuvernd grunnskólabarna í Dalvíkurbyggð er sinnt af hjúkrunarfræðingum frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) Dalvík. Markmiðið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk heilsuverndar skólabarna vinnur í náinni samvinnu við foreldra, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þjónusta heilsuverndar skólabarna er skráð í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar. Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar. Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu og Embættis landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna. Heilsuvernd skólabarna (throunarmidstod.is)
Hjúkrunarfræðingur Árskógarskóla er Karen Júlía karenf@dalvikurbyggd.is
Viðvera skólahjúkrunarfræðings á næstu misserum
*Utan þessa tíma reyni ég eftir bestu getu að vera ykkur innan handar.
*Birt með fyrirvara um breytingar.
Markmiðið með heilsuvernd í skólum er að stuðla að því að börn fái að þroskast við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á. Til þess að vinna að markmiði þessu er fylgst með börnunum svo að möguleg frávik finnist og viðeigandi ráðstafanir verði gerðar sem fyrst. Áhersla er lögð á að fyrst og fremst beri foreldrar ábyrgð á heilsu og þroska barna sinna, en starfsfólk heilsuverndar í skólum fræði, hvetji og styðji foreldra í hlutverki sínu.
Heilbrigðisfræðsla
Skipulögð heilbrigðisfræðsla er veitt í öllum árgöngum og er áherslan að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar í tölvupósti um fræðsluna. Þá gefst þeim kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig hægt er að nýta það í daglegu lífi.
Heilsueflandi viðtöl um lífsvenjur og líðan
Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9.bekk ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um líðan og lífsvenjur. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigið heilbrigði og líðan. Eins að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur.
Skimanir
Skimað er fyrir ákveðnum heilbrigðisvandamálum og eru skimanir framkvæmdar í 1., 4., 7. og 9. Bekk. Þær fela í sér mælingu á hæð, þyngd og sjónskerpu. Nemendur í öðrum árgöngum eru skimaðir eftir þörfum. Ef frávik reynist í skimun er ávallt haft samband við forráðamann.
Bólusetningar
Í 7. Bekk er bólusett við mislingum, hettusótt og rauðum hundum (ein sprauta) og stúlkur eru bólusettar gegn HPV (human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini. HPV bólusetning er gefin tvisvar með 6 mánaða millibili.
Í 9. Bekk er bólusett við barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt (ein sprauta).
Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til foreldra með upplýsingum um tímasetningu. Gott er að nemendur komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning fer fram.
Hafið samband við skólahjúkrunarfræðing ef:
Athugið að það er á ábyrgð foreldra að láta bólusetja börnin sín.
Á heimasíðu heilsuveru má finna nánari upplýsingar um heilsuvernd grunnskólabarna, bólusetningar(ónæmisaðgerðir), skimanir og skipulagða heilbrigðisfræðslu.
Hagnýtar upplýsingar
Veikindi og slys
Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp. Þurfi nemandi að fara á heilsugæsluna eða slysadeild skulu foreldrar fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í þá á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af heilsuvernd skólabarna.
Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af skólaheilsugæslunni. Foreldrum er bent á að snúa sér til heimilislæknis og Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík með heilsufarsmál sem ekki teljast til heilsuverndar grunnskólabarna.
Langveik börn
Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingur viti af börnum sem eru með fötlun eða langvinnan og/eða alvarlegan sjúkdóm, s.s. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki, blæðingarsjúkdóma eða aðra alvarlega sjúkdóma. Þessum börnum sinnir heilsuvernd skólabarna í samráði við foreldra.
Ofnæmi og óþol
Foreldrar/forráðamenn eru beðnir um að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing ef að barn er með fæðuofnæmi eða óþol. Nauðsynlegt er að framvísa læknisvottorði því til staðfestingar til þess að hægt sé að halda utan um þau börn sem þurfa á sérfæði að halda.
Lyfjagjafir – Samkvæmt tilmælum landlæknis um lyfjagjafir í grunnskólum eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Dreifibréf Nr. 7/2010. Lyfjagjafir í grunnskólum (landlaeknir.is)
Í tilmælum frá landlækni um lyfjagjafir í grunnskólum frá október 2010 kemur meðal annars fram að foreldrum/forráðamönnum beri að afhenda hjúkrunarfræðingum eða starfsmönnum skólans þau lyf sem börn eiga að fá í skólanum og að börn/unglingar skuli aldrei vera sendiboðar með lyf.
Höfuðlús
Höfuðlús birtist reglulega í skólum landsins og er mikilvægt að foreldrar kembi hár barna sinna reglulega yfir skólaárið. Rétt er að láta skólann vita ef lús finnst í hári barns og skólahjúkrunarfræðingur getur leiðbeint varðandi lúsasmit – Höfuðlús | Heilsuvera
Hreyfing, næring, svefn og hvíld
Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á líðan og heilbrigði barna sinna.
Við viljum benda foreldrum/forráðamönnum barna á mikilvægi þess að þau fái nægan svefn, hvíld og borði morgunverð. Lögð er áhersla á gildi þess að börnin komi með hollt nesti í skólann. Skorti þetta fá þau ekki notið þeirrar kennslu og þess starfs sem fram fer í skólanum. Svengd og skortur á svefni og hvíld leiða til þreytu. Börnin þola ekki langa setu og hætt er við að námsefnið fari fyrir ofan garð og neðan. Að gefnu tilefni viljum við benda á að mikilvægt er að taka lýsi og d-vitamín yfir vetrarmánuðina.
Svefnþörf barna eftir aldri: https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/svefn-og-hvild/svefnthorf/svefnthorf-eftir-aldri/
Hreyfing: https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/hreyfing/radlogd-hreyfing/radleggingar-born/
Góð samvinna og gott upplýsingaflæði er mikilvægt til að starfsfólk heilsugæslu geti sinnt starfi sínu sem best. Því eru foreldrar hvattir til að hafa samband við hjúkrunarfræðing skólans ef einhverjar breytingar verða hjá barninu sem gætu haft áhrif á andlegt, líkamlegt eða félagslegt heilbrigði þess. Að sjálfsögðu er fyllsta trúnaðar gætt um mál einstakra nemenda.
Ef foreldrar/forráðamenn vilja ekki að börn þeirra taki þátt í einhverju af því sem heilsugæslan býður nemendum upp á, eru þeir beðnir um að hafa samband við hjúkrunarfræðing sem fyrst. Ef ekkert heyrist frá foreldrum verður litið á það sem samþykki. Vilji foreldrar/forráðamenn fá upplýsingar um einstök atriði, hvað varðar heilsugæsluna er þeim líka velkomið að hafa samband við hjúkrunarfræðing skólans karenf@dalvikurbyggd.is