Ljósmyndagrúsk

Ljósmyndagrúsk

Um nokkurn tíma hefur hópur fólks komið saman á bóksafninu á Dalvík ásamt Laufeyju safnstjóra. Markmiðið er að grúska í gömlum myndum af fólki og fyrirbærum, greina fólk, hús, bíla og hvað annað sem á myndunum er og staðsetja í tíma. Mikil og þörf vinna sem þarna er unnin enda ógrynni til að gömlum myndum. Laufey vildi í þetta sinn breikka hópinn út og halda myndafund á Ströndinni. Úr varð að hún setti dreifimiða í hvert hús og póst á þá sem fyrir voru og ákveðið að hittast í Árskógarskóla. 15-20 manna hópur fólks kom svo saman og fór yfir fullt af myndum af húsum og fólki og Laufey skráði jafnóðum það sem fólkið rifjaði upp. Afar jákvæð og góð vinna og sérstaklega gaman að fá þennan hóp í skólann enda er það eitt af okkar markmiðum að vera miðstöð fólks á Ströndinni og ljóst að við eigum fullt inni af tækifærum til að nýta húsakostinn í Árskógi mun betur til ýmissa samkoma sem gefa og gleðja.

Nokkrar myndir af þessum góða hóp.