Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur víða um land á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember ár hvert. Þann dag beitir menntamálaráðuneytið sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgar þennan dag rækt við það. Einnig eru veitt svokölluð Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar en þau eru veitt einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Í ár hlaut frú Vigdís Finnbogadóttir þessi verðlaun en nánar um þau verðlaun má sjá hér
Í Dalvíkurskóla safnaðist eldra stigið saman á sal í morgunsárið og horfði saman á myndina Land og synir. Sú mynd er gerð eftir samnefndri sögu Indriða G. Þorsteinssonar og er tekin upp hér í byggðarlaginu árið 1979. Þar er að finna marga merka íbúa sem og skemmtileg myndskot af húsum og náttúru byggðarlagsins. Á meðan á sýningunni stóð punktuðu nemendur hjá sér atriði sem þeim þóttu fyrir einhverjar sakir merkileg, skrýtin eða áhugaverð. Þetta voru atriði eins og orð eða orðfæri, hlutir og atburðir. Að lokinni sýningu fór hver bekkur í sína heimastofu þar sem viðkomandi kennari ræddi við nemendur um þau atriði sem skráð höfðu verið niður. Orðin voru t.d. skrifuð upp á töflu, flett upp í orðabókum til að finna útskýringar, rætt um merkingu þeirra og notkun. Þá voru útskýrðir þeir hlutir sem notaðir voru í myndinni, rætt um áhugaverða atburði og hvernig samfélagið hefur breyst síðan þessi mynd var tekin upp. Spunnust margar góðar umræður í bekkjunum og ljóst að nemendur höfðu töluverða skemmtun af því að sjá fólk úr byggðarlaginu sem það þekkti vel – föður, afa, frænda, frænku ... og ekki síður af því að sjá hús og staði sem það hefur margoft séð í daglegu lífi.
|
Við Mímisveg | 620 Dalvík Sími á skrifstofu: 460 4980 Netfang: ritari@dalvikurbyggd.is |
Skrifstofa skólans er opin frá kl. 07:40 - 14:00. þriðjudaga og föstudaga
|
Tilkynningar um veikindi og beiðni um leyfi nemenda: 460-4980 / ritari@dalvikurbyggd.is