Töfraheimur stærðfræðinnar

Þróunarverkefnið Töfraheimur stærðfræðinnar er tveggja ára verkefni sem nær til grunnskólanna og tveggja elstu árganga leikskólanna. Það er styrkt af Sprotasjóði og hófst haustið 2010 í grunnskólanum, en hefst á fyrri hluta ársins 2011 í leikskólunum. Verkefnisstjóri og aðalleiðbeinandi er Dóróþea Reimarsdóttir meistaranemi í sérkennslufræðum með áherslu á stærðfræðinám. Hún er jafnframt verkefnastjóri sérkennslu á eldra stigi Grunnskóla Dalvíkurbyggðar. Yfirmarkmið Töfraheims stærðfræðinnar er að bæta árangur nemenda í Dalvíkurbyggð í stærðfræði. Áhersla verður lögð á að auka þekkingu kennara og foreldra á námi og kennslu í greininni. Þátttakendur eru allir kennarar og stuðningsfulltrúar sem koma að stærðfræðikennslu ásamt kennurum í listgreinum, verkgreinum, íþróttum og náttúrufræði. Sérstakir fræðslufundir verða fyrir foreldra. Kennurum verða kynntar helstu kenningar um stærðfræðinám, um þróun talna og aðgerðaskilnings, matstæki til að meta talnaskilning, þrautalausnir, leiðir til að mæta mismunandi stærðfræðifærni í bekk og áhersla verður lögð á að tengja saman stærðfræði hins daglega lífs og skólastærðfræðina. Foreldrum verða kynntar breyttar áherslur sem orðið hafa í stærðfræðikennslu og hvernig þeir geta stutt við börn sín heima.

 

Spilaleiðbeiningar:

 

 

 

Hér má sjá glærur sem Dóra Reimars sýndi með stuttu spjalli um stærðfræðinám á opnu húsi í Dalvíkurskóla í mars 2012.