Blómin springa út og þau svelgja í sig sól

Það voru margir sem nýttu sér hjólaskoðun á Bókasafni Dalvíkurbyggðar
Það voru margir sem nýttu sér hjólaskoðun á Bókasafni Dalvíkurbyggðar

Eins og víða annarstaðar tekur við annarskonar taktur á Bókasafni Dalvíkurbyggðar yfir sumartímann. Þegar skólarnir eru komnir í sumarfrí eru yngri bókasafnsgestir tíðari en ella, fullorðna fólkið nælir sér í sumarfrí-bækurnar og fólk á öllum aldri sækir sér hljóðbækur fyrir ferðalagið.

Hefðbundið starf, þ.e. fastir liðir eins og venjulega fara yfirleitt í „sumarfrí“ og er þá aðallega átt við skipulagðar leikskólaheimsóknir og ljósmyndahópinn á Héraðsskjalasafni Svarfdæla. Hugleiðsluhádegið heldur áfram yfir sumartímann og er alltaf á fimmtudögum frá 12.15-12.30 í undirgöngunum milli bóka og héraðsskjalasafnsins. Við hvetjum auðvitað alla til að prófa í sumar sem ekki hafa enn gefið sér þessar 15 mínútur að gjöf.

Fyrir þá sem eru áhugasamir um hugleiðsluhádegi á bókasafninu hefur verið búinn til sérstakur hópur sem þjónar hlutverki áminningar sem og vettvangur fyrir fólk að deila á milli sín fróðleik um hugleiðslu, skiptast á æfingum og almennri vitneskju um núvitund. Með því að þrýsta HÉR er hægt að gerast meðlimur í hugleiðslu-hópnum. Það eru allir velkomnir og það eru engar kvaðir sem fylgja því að ganga í hópinn.

Nú hefur Upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn verið formlega opnuð hjá okkur á bókasafninu og verður hún, eins og bókasafnið opin frá 09.00 – 17.00 alla virka daga og frá 12.00 – 17.00 á laugardögum. Á sunnudögum er lokað í öllu húsinu. Jón Emil Gentry stendur vaktina í upplýsingamiðstöðinni eins og síðastliðin tvö sumur og eins er Björk Eldjárn komin í sumarafleysingar á bókasafninu líkt og síðasta sumar. Það er því nokkuð ábyggilegt að vel verður tekið á móti öllum gestum í Menningarhúsinu Bergi.

Það standa yfir mikil tímamót hjá okkur á bókasafninu því nú hefur hún Rósa okkar Þorgilsdóttir sagt upp störfum sem bókavörður á Bókasafni Dalvíkurbyggðar og safnvörður á Héraðsskjalasafni Svarfdæla og er þar með komin á eftirlaun.

Rósa hefur starfað um árabil hjá bæði bóka- og héraðsskjalasafninu og tekið þátt og gengið í gegnum allar helstu  breytingar innan þessara tveggja stofnanna. Hún er einnig sú manneskja sem hefur starfað lengst innan veggja Menningarhússins Bergs, enda tók hún þátt í því að flytja bókasafnið úr kjallara Ráðhússins upp á yfirborðið í hjarta bæjarins. Rósa er mörgum fastagestum bókasafnsins mun meira en bara þjónustufulltrúi því hún ljáir öllum þeim sem vilja eyra og sinnir ekki síður samfélagsþjónustu en að lána og innheimta bækur. Það verður mikill sjónarsviftir af því að hafa Rósu ekki lengur í afgreiðslu bókasafnsins og er það næstum víst að bæði starfsfólk og viðskiptavinir eiga eftir að sakna hennar mikið. Við á bókasafninu samgleðjumst Rósu þó innilega í þessum miklu breytingum og fögnum því að nú fái hún tækifæri til að blómstra í nýjum verkefnum á öðrum sviðum.

Við, samstarfsfólk hennar á bóka- og héraðsskjalasafninu sem og í Menningarhúsinu Bergi, þökkum Rósu fyrir afburðar vel unnin störf og fyrir kært og gefandi samstarf. Myndin hér að neðan er tekin þegar fyrverandi og núverandi samstarfsmenn og konur hittust til að skála fyrir elskulegri Rósu okkar í tilefni starfslokanna.

 

 

 

 Við höfum nú þegar auglýst eftir arftaka Rósu í starfi, einhverjum til að taka við keflinu og koma með nýjar og ferskar hugmyndir inn í annars viðburðaríkt starf bókasafnsins. Við viljum halda áfram að efla menningarstarfsemi á safninu, efla læsi í öllu formi, með lestri, hlustun og fjölbreyttum menningarviðburðum og leitum af einstakling sem er tilbúinn að leggja til og vera okkur samferða í því ferðalagi. Atvinnuauglýsinguna má skoða nánar HÉR!

 

Þriðjudaginn 12. Júní var skemmtilegur viðburður hjá okkur á bókasafninu sem að öllum líkindum hefur stimplað sig inn sem árlegur viðburður. Þetta var „Hjólið í lag – fyrir sumardag“. Þar var gestum bæjarins boðið að koma með reið- og hlaupahjólin sín og yfirfara þau, smyrja, stilla bremsur og gíra, skrúbba skítinn og bóna. Tveir starfsmenn vinnuskólans, þær Rakel og Steinunn, hjálpuðu okkur að koma upp öllum græjum og veittu leiðsögn auk þess sem Sævar Freyr Ingason lögregluþjónn kom á staðinn og gaf leiðsögn við hjálmastillingar og útskrifaði yfirfarin hjól með sérstökum lögreglulímmiða. Yfirumsjón með deginum hafði sérlegur hjólasérfræðingur, Jón Halldórsson og kunnum við þeim öllum miklar þakkir fyrir sína vinnu. Það er alveg frábært að hafa fólk í sinni heimabyggð sem er tilbúið að deila tíma sínum og þekkingu í þágu bæjarbúa.

Við stefnum á að bjóða upp á fjölbreytta viðburði í sumar og reynum að auglýsa þá vel með góðum fyrirvara og hvetjum að því tilefni fólk til að fylgjast vel með heimasíðunni okkar, fésbókarsíðunni og instagram. Þá ætti ekkert að fara framhjá neinum!

 

Við viljum endilega hvetja alla til að leggja leið sína í Gamla skóla og skoða þar sýningu á verkum Jóns Stefáns Brimars Sigurjónssonar. Á sýningunni má sjá hátt í 400 verk og þar af koma tæplega 130 verk úr eigu Listaverkasafns Dalvíkurbyggðar. Umrædd verk Brimars voru færð Dalvíkurbæ að gjöf á sínum tíma, eftir andlát hans og hafa þau hangið uppi á hinum ýmsu stofnunum síðan þá en aðrar varðveittar í geymslu. Það er hins vegar mikil ánægjustund að sjá svo stóran hluta verka Brimars hanga uppi á sama stað, á sama tíma. Á meðfylgjandi mynd má sjá Björk Hólm með safni Dalvíkurbyggðar þar sem það var flutt frá Ráðhúsinu yfir í Gamla skóla. Eins og sjá má er þetta heljarinnar fjöldi mynda. Brimar var afar fjölhæfur listamaður eins og fólk sér best með því að fara sjálft á sýninguna. Í tilefni af sýningunni, og 90 ára afmæli Brimars var gefin út bók um hann sjálfan og verkin hans sem ber nafnið: Demantar Dalvíkur. Bókin er fáanleg að láni á Bókasafni Dalvíkurbyggðar og er auk þess til sölu á sýningunni í Gamla skóla. Sýningin verður opin út júní frá 13.00-21.00 og aftur yfir Fiskidagshelgina.

 

 

 

 

 

 

Í sumar bíður bókasafnið upp á allskyns úrræði til að sporna gegn svokölluðum sumaráhrifum. Hægt er að lesa ítarlegri lesningu um sumaráhrifin í færslu sem kom HÉR inn fyrir skömmu síðan.  

Helst má þar nefna sumarlestur þar sem lestrarhestur og forráðamaður koma saman á bókasafnið og gera samning við bókasafnsstarfsmann um hversu margar bækur hann ætli að lesa yfir sumarið (að minnsta kosti). Eftir hverja lesna bók skrifar lesandinn stutta umsögn og gefur bókinni að lokum stjörnur eftir því hvernig honum líkaði bókin. Að tímabilinu loknu fá allir þeir sem stóðu við samninginn sérstakt viðurkenningarskjal og fara sjálfkrafa í verðlaunapott þar sem einn heppinn lestrarhestur verður dreginn út og hlýtur smá glaðning í lok sumars.

Við höfum auk þess útbúið svokallaðar bókaskjóður sem eru nú aðgengilegar á bókasafninu og tilbúnar til útláns. Bókaskjóður eru hálfgerðir óvissupokar sem innihalda lesbók um ákveðið efni, fræðibók um sama efni og aðra tengda bók – ýmist sögu eða staðreyndabók. Efnin í pokunum eru mjög fjölbreytt og ólík hver öðru. Í pokunum eru einnig leikföng, tilmæli til að hrista upp í lestrinum, spilastokkur og margt fleira. Lesbókina ætti barnið sjálft að geta lesið en fræðibókin er ætluð foreldrum til að lesa með barninu. Það er okkar von að bókaskjóðurnar komi til með að hvetja til enn frekari lestrurs, sköpunar og fróðleiksfýsnar. Þar að auki er það okkar von að verkefnið hvetji báða/alla foreldra til þess að lesa meira með börnunum sínum og ræða við þau um innihald lestursins. Við þreytumst ekki á að ítreka að FORELDRAR ERU HELSTA LESTRARFYRIRMYND BARNA SINNA! Bókaskjóðurnar eru frábær leið fyrir börn og foreldra að skapa, lesa og læra eitthvað nýtt saman!

 

Á sumrin leggjast margir í ferðalög sem fela oftar en ekki í sér langar bílferðir sem geta reynst mörgum afar krefjandi stundir, bæði börnum og fullorðnum. Við höfum að því tilefni stillt upp nokkrum hugmyndum fyrir ferðalagið. Hér má finna skemmtilegar bækur fyrir alla fjölskylduna að lesa saman í bílnum, gátur og spurningaleiki, hljóðbækur, ferðabingó og margt, margt fleira. Ferðalögin verða svo miklu skemmtilegri þegar þau snúast ekki bara um að komast á áfangasta heldur njóta leiðarinnar þangað líka. Endilega kíkjið á bókasafnið og finnið ykkar leið til að gera ferðalagið að skemmtilegri og fræðandi upplifun.

Það koma reglulega nýjar bækur á bókasafnið og reynum við að láta vita af því jafn óðum á samfélagsmiðlum en einng bendum við á að það má alltaf ræða við okkur ef þið leitið af bók sem við eigum ekki. Ef við getum ekki eignast hana má alltaf skoða millisafnalán.

Við minnum enn og aftur á rafbókasafnið – leiðbeiningar um hvernig má nota það er að finna HÉR!

Svo hvetjum við ykkur auðvitað til að fylgjast með Instagram og fésbókarsíðunni okkar – það kemur inn ný fössarafésbók mynd á hverjum föstudegi og þar er alltaf líf og fjör!

 

Þó að veðrið leiki ekki við okkur þessa dagana og úti sé heldur grátt og blautt í dag þá erum við á bókasafninu í sólskinsskapi og hlökkum til þess að njóta sumarsins með ykkur. Um helgina er bæði fyrsti leikur Íslands á HM og þjóðhátíðardagur Íslendinga, hæ, hó og jibbí jei! Það má því vænta mikilla hátíðarhalda á hverju heimili! Það verður nóg um að vera hér í Menningarhúsinu Bergi – opnun á nýrri listasýningu á laugardaginn og þjóðhátíðardagskrá á Sunnudaginn.

Hlökkum til að sjá alla með bros á vör - hvernig sem kann að viðra!