Bókasafnið og læsi

Bókasafn Dalvíkurbyggðar gerir allt sem það getur til að styðja við læsi allra aldurshópa. Meginhlutverk bókasafna er að veita fólki, bæði börnum og fullorðnum, greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti og öðrum miðlunargögnum. Allir eiga rétt á óheftu aðgengi að upplýsingum og þekkingarmiðlum. Markmiðið er hins vegar alltaf fyrst og fremst að varðveita og efla íslenska tungu, stuðla að símenntun og örva lestraráhuga. 

Til þess að uppfylla þessi markmið notar Bókasafn Dalvíkurbyggðar margvíslegar leiðir og má þar helst nefna:

 

Sumarlestur

Sumarlestur er einstaklega góð leið til að viðhalda og efla lestrarfærni sem börn hafa náð fyrir veturinn og er auk þess gott tækifæri til að brjóta upp daglega lestrarrútínu sem oft getur fylgt náminu.

Sumarlestur getur skipt miklu máli fyrir lestrarþroska barna. Rannsóknir hafa sýnt að reglulegur lestur yfir sumartímann styrkir bæði orðaforða og þekkingu og tryggir það að börn dragist ekki aftur úr þegar skólinn byrjar á haustin. Margar rannsóknir hafa sýnt að börn sem lesa á sumrin mæta mun ferskari til leiks að hausti en þau sem hafa ekkert lesið í sumarfríinu. Það er talið að þau börn sem lesa ekkert yfir sumartímann þurfi allt að 6-8 vikur í upprifjun og geti dregist aftur um allt að þrjá mánuði. 

Bókasafn Dalvíkurbyggðar er með fjölbreitt úrval lesbóka á öllum erfiðleikastigum en það skiptir auðvitað mestu máli að allir þátttakendur fái lesbækur fyrir sitt hæfi.

Til að taka þátt í sumarlestrinum er skilyrði að barn og a.m.k. annað foreldri eða staðgengill foreldris (t.d. afi/amma/frænka/frændi) skrái sig hjá forstöðumanni bókasafnsins, fái þar afhent gögn ásamt því að útbúa svokallaðan„lestrarsamning“. Þegar bókum er skilað fyllir lesandinn út smá umsögn og að tímabilinu loknu fá allir lesendur viðurkenningarskjal.

 

Bókaskjóður

Hér ræðir um hálfgerða óvissupoka sem innihalda lesbók um ákveðið efni, einhverja fræðibók um sama efni, leikfang sem tengist efninu og ýmis tilmæli sem ættu að hrista upp í lestrinum. Bókaskjóðan er í heimasaumuðum taupoka og í pokanum má finna tauliti sem á að nota til að teikna/skrifa á pokann – Skjóðan sjálf verður þannig að hálfgerðri gestabók.

Lestrarbókna ætti barnið sjálft að geta lesið en fræðibókin er ætluð foreldrum til að lesa með barninu – báðum foreldrum. Mikilvægt er að hafa í huga að foreldrar og forráðamenn eru helstu lestrarfyrirmyndir barna og er það okkar von að bókaskjóðurnar geti hvatt foreldra ennfrekar til að lesa með börnunum sínum og ræða við þau um innihald lestursins. 

 

Leikskólaheimsóknir

Farsælt samstarf við skólastofnanir byggðalagsins er mjög mikilvægt.

Frá september fram í maí koma 3 hópar vikulega í heimsókn á bókasafnið frá leikskólanum Krílakoti. Í þessum heimsóknum er unnið fjölbreytt starf sem yfirleitt byggist í kringum valda sögu sem við byrjum á að lesa saman. 

Grunnskólaheimsóknir 

Samstarfið við grunnskólann er ekki í jafn föstum skorðum og við leikskólann enda mun stærri og breiðari hópur. Að því sögðu mælum við með því við kennara og skólastjórnendur að allir bekkir heimsæki bókasafnið a.m.k. einu sinni yfir skólaárið og fái þá einhverja fræðslu eða nýti rýmið til að styðja við kennsluna með einhverjum hætti. Þetta gerum við t.d. með því að fara í ratleiki, spurningakeppnir, höfum samlestur og sögustundir, listasmiðjur og uppskeruhátíðir svo dæmi séu nefnd. Í lok skólaársins er síðan elstu bekkjunum boðið í kennslu í upplýsingaleit og uppbyggjandi fræðslu fyrir áframhaldandi nám og þeim afhent lánþegaskírteini sem gildir bæði á Bókasafn Dalvíkurbyggðar og Amtsbókasafnið á Akureyri.  

Ef börn venjast því að umgangast bækur og bókasöfn er líklegra að þau haldi því áfram þegar líður á unglings- og fullorðinsár. 

Þess má geta að mánaðarlega er farið með bókakassa í Árskógarskóla þar sem nemendur geta nálgast nýlegar bækur til láns. 

 

Samfélagslæsi

Bókasafn Dalvíkurbyggðar hefur lagt sig fram við að verða rými þar sem fólk getur komið saman til að njóta nýrra upplifanna, menningar og lista.

Ný markmið almenningsbókasafna snúa að miklu leiti að því að búa til upplifun, styrkja einstaklinga og hvetja þá til þátttöku og nýsköpunar. Það hefur sýnt sig að gott aðgengi barna og unglinga að menningu eykur víðsýni þeirra og umburðalyndi og með virkri þátttöku í menningarstarfi þá eykst vitund þeirra um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi á sama tíma og þau öðlast færni í samfélagslegri þátttöku. 

Með þetta að leiðarljósi hefur Bókasafn Dalvíkurbyggðar boðið upp á reglulegar og fjölbreyttar samverustundir sem stuðla að auknu samfélagslegu læsi. Lagt var upp með fjölbreytta samsuðu lestrar, leikja, hreyfingar og sköpunar. Þær samverustundir sem hafa verið hingað til eru eftirfarandi: barnajóga, ævintýrastund, hjóladagur, flugdrekasmiðja, Leikjadagur með sirkúsþema, vinabandasmiðja, 

Í fljótu bragði virðast þessar samverustundir ekkert endilega snúast um lestur eða jafnvel bækur ef út í það er farið – en þær snúast samt sem áður um læsi… Þær efla sköpun, styrkja menningarlegt og samfélagslegt læsi og þær gefa börnum og fullorðnum þá hugmynd að bókasafnið sé partur af því umhverfi sem þau eiga aðild að.