Aðstaða

Aðstaða bókasafnsins

Bókasafn Dalvíkurbyggðar er staðsett í menningarhúsinu Bergi, í hjarta og miðbæ Dalvíkur. Bókasafnið er opið alla virka daga frá 10-17 og á laugardögum frá 13-16. Bókasafn Dalvíkur veitir metnaðarfulla þjónustu og reynir að aðstoða alla eftir fremsta megni, hvort sem það er við upplýsingaleit eða við val á dægurbókmenntum og allt þar á milli. Fjölbreyttir viðburðir eru haldnir reglulega á vegum bókasafnsins og tökum við fagnandi á móti ábendingum eða óskum frá íbúum Dalvíkurbyggðar. 

Afgreiðsla bókasafnsins blasir við um leið og gengið er inn í Berg. Þar tekur á móti gestum glaðvært og metnaðarfullt starfsfólk sem tilbúið er að aðstoða hvern sem er. Hér er jafnframt Upplýsingamiðstöð ferðamanna staðsett yfir sumartímann. 

Afgreiðsla bókasafnsins

 

Snarlbarinn

Við vinnum nú að því að bæta aðstöðuna okkar enn frekar og höfum innleitt svokallaðann -snarl-bar- á kaffihúsið sem er opinn á sama tíma og bókasafnið. Við tökum fagnandi á móti öllum þeim sem vilja nýta húsið til lærdóms, vinnu eða annarra skapandi verka. Hér er nóg af borðum og hægt að hafa það kósý til dæmis með góðan kaffibolla og tímarit. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Við hvetjum fólk einnig til að kynna sér umsóknaferli fyrir umsjón með kaffihússins, viðburði og fleira á heimasíðu Menningarhússins Bergs og ef einhverjar frekari spurningar vakna má alltaf hafa samband á netfangið bjork@dalvikurbyggd.is.
 
   

 

Almennur útlánasalur

Í aðalsal bókasafnsins er allur almennur samkostur, svo sem skáldsögur, ævisögur, ferðabækur, ljóðabækur, leikrit, fræðibækur, s.s. sálfræði-, heimspeki-, læknisfræði og þjóðfræðibækur svo dæmi séu tekin. Borð og sófar eru til staðar fyrir þá sem vilja lesa blöðin eða annað safnefni á staðnum. Í almennum útlánasal eru hljóðbækur og mynddiskar einnig staðsettir, tölva til afnota fyrir safngesti og barnahornið. Við suðurglugga salarins er sýningarskápur þar sem settar eru upp tímabundnar sýningar eða uppstillingar með fjölbreyttum og ólíkum þemum. 

      

 

Afnot af tölvu

Fyrir framan afgreiðsluna stendur tölva sem er opin fyrir gesti safnsins. Hægt er að fara á internetið eða nýta hana til útprentunar. Greiða þarf sérstaklega fyrir útprentun en nánari upplýsingar um verð má finna í gjaldkrá undir þjónustuflipanum.  

 

 

Barnadeild

Í barnahorninu eru barna- og unglingabækur staðsettar. Í barnahorninu er aðstaða fyrir börnin að sitja og teikna eða lesa bækur. Hér eru bækur fyrir yngstu kynslóðina og ýmislegt annað afþreyingarefni eins og púsl, spil, litir og litabækur. Í barnakrók er notaleg stemming, mjúkir sófar, pullur og teppi að ógleymdum mjúkdýrunum sem finnst gaman að hlusta á lestur og fá að leika með. Nánar um aðstöðuna í barnadeild hér

     

    

 

Sófakrókur - kósýhorn

Hægt er að tilla sér í sófann og lesa blöð eða bækur á staðnum og jafnvel gæða sér á einum góðum kaffibolla. Öllum er velkomið að fá sér sæti á bókasafninu á opnunartíma og hafa margir nýtt sér hornið til annarra verka en til lesturs. Sést hefur til einstaklinga gera handavinnu, við brjóstagjöf, að ljúka heimavinnu eða spila tölvuleiki svo fátt eitt sé nefnt. Í horninu hefur stundum verið í boði prjónakarfa með garni og prjónum þar sem gestir geta prjónað nokkrar umferðir (nú eða heilt stykki) og úr verði allskonar lítil prjónastykki. Þessi stykki hyggjumst við svo flétta saman svo úr verði teppi. Þetta teppi mætti þá kalla hálfgert samvinnuteppi þar sem allir bæjarbúar fá tækifæri til að setja sína lykkju á verkið. Verið velkomin að fá ykkur sæti.

 

 

 

 

 Geymsla/Stjörnugöngin

Í kjallara bókasafnsins er eldri bókakostur safnsins geymdur. Stærsti hluti bókanna er í hillum í undirgöngum sem liggja frá Bergi yfir á Héraðsskjalasafnið í Ráðhúsinu. Öllum er frjálst að kíkja niður og fá að láni bækur sem þar eru. Leikskólabörnum finnst afar spennandi að fara niður og við erum ekki frá því að þeir fullorðnu sem þeim fylgja séu yfirleitt jafn spenntir. Það er svo merkilegt með undirgöngin (öðru nafni stjörnugöngin) að þrátt fyrir að göngin séu neðanjarðar er möguleiki á því að sjá til stjarnanna séu ljósin slökkt. Við hvetjum alla til að koma og sannreyna það. 

Undirgöng frá Bergi yfir í Ráðhús