Um safnið

Bókasafnið á Dalvík leggur sig fram við að bjóða upp á fjölbreyttan bókakost og vinnur nú að því að efla framboð á hljóbókum og mynddiskum. Bókasafnið er eign allra íbúa Dalvíkurbyggðar og þangað eru allir velkomnir, hvort sem það er til að flýja kuldann, eyða tíma eða nota það til lesturs. Starfsfólk bókasafnsins leggur mikið upp úr því að bókasafnið sé lifandi staður sem fólki líður vel á. 

Bókasafnið er landfræðilega staðsett í miðju bæjarins og er það ósk starfsmanna að bókasafnið taki sér einnig huglæga stöðu íbúa sem miðja og jafnvel hjarta bæjarins. Víðsvegar um heiminn hafa bókasöfn verið að þenja út mörkin og starfa í auknum mæli sem hálfgerðar menningarmiðstöðvar. Bókasafn Dalvíkurbyggðar hefur síðastliðið ár stigið sín fyrstu skref í áttina að þessari hugmyndafræði og leitast nú við að efla læsi, ekki bara í gegnum bækur heldur einnig í gegnum upplifun og þátttöku í menningarviðburðum. Ný markmið almenningsbókasafna snúa að miklu leiti að því að búa til upplifun, styrkja einstaklinga og hvetja þá til þátttöku og nýsköpunar. Það hefur sýnt sig að gott aðgengi barna og unglinga að menningu eykur víðsýni þeirra og umburðalyndi og með virkri þátttöku í menningarstarfi þá eykst vitund þeirra um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi á sama tíma og þau öðlast færni í samfélagslegri þátttöku. 

Eitt af hlutverkum almenningsbókasafna er að hjálpa til við mótun samfélagsins og styðja við sjálfsmynd þess. Þetta geta bókasöfn gert með því að benda á – með beinum eða óbeinum hætti hvað er að gerast á sviði menningar og lista í samfélaginu auk þess sem bókakosturinn ætti að endurspegla þau tungumál sem eru töluð í samfélaginu og styðja þannig ennfrekar við menningu og fjölmenningu samfélagsins. 

Bókasafn Dalvíkurbyggðar vinnur samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn en þar segir í 1. grein laga eftirfarandi: 

Almenningsbókasöfn eru upplýsinga- og menningarstofnanir. Hlutverk þeirra er að veita fólki, bæði börnum og fullorðnum, greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti og öðrum miðlunargögnum, þar á meðal tölvubúnaði og upplýsingum á tölvutæku formi. Þau skulu efla frjálsan og óheftan aðgang almennings að upplýsingum og þekkingarmiðlum. Söfnin skulu hvert á sínu þjónustusvæði kappkosta að vera menningarstarfi og atvinnulífi til styrktar og hafa tiltækar upplýsingar fyrir almenning um opinberar stofnanir og þjónustu. Markmið þeirra skal vera að efla íslenska tungu, stuðla að símenntun og örva lestraráhuga. Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna. Er öllum sveitarfélögum skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög. Almenningsbókasöfn skulu hvert og eitt haga starfi sínu þannig að komið verði við sem öflugastri samvinnu bókasafna í landinu um þjónustu við notendur

Það er hlutverk Bókasafns Dalvíkur að starfa eftir þessum lögum og þjónusta almenning.