Útivistartími barna og unglinga

Útivistartími barna og unglinga

Á vef Umboðsmanns barna er fjallað um útivistartíma barna:

Fjallað er um útivistartíma barna í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þar segir: 

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. 

Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Sömu opinberu reglur gilda því um öll börn í sama árgangi.  Ýmsar ástæður eru fyrir því að takmarka útivist barna og unglinga á kvöldin.  Helstar eru:

  • Nægur svefn er mikilvæg forsenda góðrar heilsu, vellíðunar og árangurs í skólanum.  Það að vera komin heim á skikkanlegum tíma og eiga smástund heima fyrir háttinn hjálpar vaxandi fólki að fara fyrr að sofa.
  • Þreytt og illa sofið fólk er líklegra til að lenda í slysum og óhöppum, sérstaklega þegar skyggja tekur.
  • Börn og unglingar sem eru úti langt fram á kvöldin eru líklegri til að fara fyrr að fikta við tóbak, áfengi og fíkniefni.
  • Alvarlegar líkamsárásir og óæskileg kynlífsreynsla eiga sér oft stað seint á kvöldin.

Reglur um útivistartíma segja til um hvað börn mega vera lengi úti en ekki hvað þau eiga að vera lengi úti.  Foreldrar geta að sjálfsögðu sett sínar eigin reglur innan ramma útivistarreglna. 

Reglur barnaverndarlaga um útivistartímann gilda ekki fyrir þá unglinga, sem verða 16 ára á árinu. Lög kveða því ekki á um útivistartíma 16 ára unglinga.

Börn öðlast stigvaxandi rétt til að taka ákvarðanir um eigin málefni sjálf með hækkandi aldri og auknum þroska, þar á meðal varðandi útvistartíma. Þar sem foreldrar fara með forsjá barna og bera ábyrgð á þeim til 18 ára aldurs er það þó í höndum foreldra að ákveða útivistartíma barna á aldrinum 16 til 18 ára. Foreldrum ber þó að veita börnum tækifæri til að hafa áhrif á slíkar reglur, eins og meðal annars kemur fram í 28. gr. barnalaga. Eðlilegt er að foreldrar setji reglur um útivist 16 ára barns í samráði við barnið og þurfa reglurnar að vera sveigjanlegar, sanngjarnar og skiljanlegar barninu.