Reiðhjól og hjólaleiktæki

Reiðhjól og hjólaleiktæki

Þar sem sólin er farin að hækka á lofti og snjórinn á undanhaldi líður að því að nemendur taki fram reiðhjólin sín sem er hið besta mál. Nemendur ættu því að geta komið á hjólum í skólann. Vegna slysahættu er ekki leyfilegt að hjóla á skólalóð á skólatíma. Við brýnum fyrir fólki að fara að öllu með gát og huga að öryggi barnanna. Minnum samt á að enn getur verið hálka snemma á morgnana.

Öll börn yngri en 16 ára þurfa að hafa hjálm og hann verður að passa barninu og sitja rétt á höfðinu. Athugið að þykkar húfur geta breytt því hvernig hjálmurinn hlífir.

Það þarf að huga að settum umferðarreglum en í Umferðarlögum: 44. gr. má sjá eftirfarandi: “Börn og reiðhjól. Barn yngra en níu ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri. Hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri má reiða börn yngri en sjö ára, enda séu þeim ætluð sérstök sæti og þannig um búið að ekki stafi hætta af hjólteinunum”.

Börn yngri en 9 ára mega því ekki fara ein síns liðs um gatnakerfið ef þau þurfa að vera á akbrautum. Hjóli börn yngri en 9 ára á milli staða, verða þau að komast leiðar sinnar eftir gangstígum, gangstéttum og gangbrautum. Akbrautir eru bannsvæði, nema undir eftirliti þeirra eldri. Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Í umferðarlögum kemur fram að það má ekki aka rafknúnu hlaupahjóli á akbraut. Leiðbeinum þeim yngstu og sýnum ábyrgð.