Unnur Marý og Kristján Sölvi prófa brettin
Unnur Marý og Kristján Sölvi prófa brettin

Einn af föstu liðunum í skólastarfinu hjá okkur í Dalvíkurskóla er útivistardagur á vorönn, þar sem nemendur dvelja á skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli á skólatíma. Útivistardagurinn er yfirleitt ákveðinn  með stuttum fyrirvara þegar það eru líkur á góðu útivistarveðri, í samráði við starfsfólk Skíðafélags Dalvíkur og er ókeypis í lyftur fyrir alla. Einnig er öllum nemendum heimilt að fá lánaðar skíðagræjur án endurgjalds og fá allir sem vilja aðstoð við að fóta sig á skíðunum. Þessi dagur er tilhlökkunarefni hjá bæði nemendum og starfsfólki, enda bara gaman að fá að leika sér á skíðum eða sleðum þennan dagpart.   Þetta er t.d. eina skiptið á árinu sem leyfilegt er að fara á sleðum í lyftuna en að sjálfsögðu þurfa nemendur að fylgja ákveðnum reglum sem starfsfólkið í fjallinu setur. 

Dalvíkurskóli býður upp á heitt súkkulaði í kaffitímanum á útivistardegi og svo er pylsuveisla í hádeginu. 

Elsta stigið fór í fjallið þriðjudaginn 29. janúar sl, miðstigið 5. febrúar og stefnt er að útivistardegi hjá yngsta stiginu fljótlega, en þessa dagana eru krakkarnir í 1. bekk á skíðanámskeiði í íþróttatímunum sínum. Skíðafélag Dalvíkur býður upp á þetta námskeið í samstarfi við skólann.