Boðuð verkföll stéttarfélagsins Kjalar

Á mánudag og þriðjudag í næstu viku hefjast verkfallsaðgerðir stéttarfélagsins Kjalar ef ekki semst fyrir þann tíma. Tímasetningar verkfallanna er sem hér segir:

Mánudaginn 9. mars og þriðjudaginn 10. mars 2020 (tveir sólarhringar)
Þriðjudaginn 17. mars og miðvikudaginn 18. mars 2020 (tveir sólarhringar)
Þriðjudaginn 24. mars 2020 (einn sólarhringur)
Fimmtudaginn 26. mars 2020 (einn sólarhringur)
Þriðjudaginn 31. mars og miðvikudaginn 1. apríl 2020 (tveir sólarhringar)
Ótímabundið frá og með miðvikudeginum 15. apríl 2020

Þar sem báðir starfsmenn Frístundar verða í verkfalli þá verður Frístund lokuð á meðan verkfalli stendur.

Starfsmenn í íþróttamiðstöð eru flestir í Kili og verða í verkfalli þessa daga og íþróttamiðstöðin lokuð. Skólaíþróttir verða með öðru sniði verkfallsdagana.

Mikilvægt er að hafa í huga á meðan verkfalli stendur að skólastjóra ber að sjá til þess að starfsemi og þjónusta skólans truflist sem minnst vegna verkfallsins. Stofnunin heldur starfsemi sinni áfram enda fara einungis þeir í verkfall sem það hafa löglega boðað. Skólastjóri getur sem stjórnandi stofnunarinnar gengið sjálfur í öll störf, m.a. ræstingar, framreiðslu matar og sinnt gæslu í frímínútum svo eitthvað sé nefnt. Stofnunin getur þannig starfað áfram svo lengi sem henni hefur ekki verið lokað af heilbrigðiseftirlitinu vegna óþrifa. Forstöðumanni ber þannig að sjá til þess að stofnunin sé starfandi eftir sem áður með því starfsfólki sem ekki er í verkfalli. Þótt starfsmenn sem eru í Kili leggi niður störf hefur forstöðumaður eftir sem áður óskoraðan stjórnunarrétt til að skipuleggja og stýra verkum undirmanna sinna og gera aðrar stjórnunarlegar ráðstafanir vegna starfseminnar, þó í samræmi við ofangreint.

Ekki stendur til að skerða þjónustu við nemendur að öðru leyti en því að Frístund verður lokuð.

Að sjálfsögðu vonum við að búið verði að semja áður en að verkföllum kemur.

Ef þið hafið einhverjar spurningar og/eða eitthvað er óljóst varðandi verkfallið þá hafið þið samband við stjórnendur.