Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn

Á þriðjudaginn næstkomandi, 11. febrúar verður alþjóðlegi netöryggisdagurinn haldinn hátíðlegur um heim allan. Við hjá Heimili og skóla og SAFT viljum hvetja alla skóla til að halda upp á daginn og ræða við nemendur um mikilvægi netöryggis.

Hægt er að nálgast ýmislegt efni á heimasíðu okkar, www.saft.is til stuðnings fyrir kennara, góðar hugmyndir og fróðleik um netöryggi fyrir nemendur á öllum aldri. Einnig má finna myndbönd um efnið á Youtube síðu okkar www.youtube.com/saftinsafe auk þess sem við deilum reglulega áhugaverðu efni fyrir fagfólk og foreldra á Facebook síðu okkar: www.facebook.com/saft.iceland

Við viljum einnig vekja athygli á UngSAFT sem er ungmennaráð SAFT. UngSAFT er vettvangur fyrir ungmenni til að ræða helstu málefni líðandi stundar tengd netinu og leita lausna til að gera netið að betri stað fyrir ungt fólk. Við erum í sambandi við stjórnvöld hérlendis og ungmennaráð víðsvegar um Evrópu og vinnum með þeim bæði í gegnum netið og á ferðalögum erlendis. 

Okkur langar til að bjóða hressum unglingum í 7.-10. bekk um allt land til þess að slást í hópinn með okkur. UngSAFT kemur saman tvisvar á ári en þess á milli höldum við fjarfundi í gegnum netið. Þátttaka í ungmennaráðinu er frábært tækifæri fyrir ungt fólk til að hafa áhrif á málefni sem þau þekkja mjög vel og geta hjálpað til við að móta til framtíðar. Það er von okkar að þið gefið unglingum í ykkar skóla tækifæri til að vera með og hvetjið áhugasama að sækja um hér: saft.is/umsokn

Í ár beinum við sjónum einnig að leikskólastiginu og sendum í síðustu viku bæklinginn Ung börn og snjalltæki til allra leikskólaforeldra landsins. Í kjölfarið verður haldin opin fræðsla um efni hans í samstarfi við leikskólaforeldra í Hafnarfirði á alþjóðlega netöryggisdaginn. Efni bæklingsins á líka fullt erindi við foreldra barna á yngsta stigi í grunnskóla og má nálgast rafræna útgáfu hans hér:SLÓÐ. Prentuð eintök er einnig velkomið að fá á skrifstofu okkar að Suðurlandsbraut 24.

Í tilefni dagsins verður kynnt ný Ábendingarlína þar sem börn og fullorðnir geta tilkynnt ólöglegt eða óviðeigandi efni á netinu. Ábendingarlínan er rekin af í samstarfi Barnaheilla og Ríkislögreglustjóra sem aðili af SAFT.

Bestu netöryggis-kveðjur,

SAFT teymið, Heimili og skóli – Landssamtök foreldra