Sumarlestur hefst 1. júní !

Sumarlestur hefst 1. júní !

Sumarlestur

Þá eru skólaslitin búin og eflaust margir nemendur fegnir því að komast í frelsið og losna undan oki skólarútínunnar.

Sumarfríin eru nauðsynleg og uppábrotin á tilveruna mikilvæg. Að því sögðu eru nokkur atriði sem okkur á bókasafninu langar að vekja sérstaka athygli á.  

Þegar kemur að lestri og lestrarfærni hefur verið um eitthvað sem kallast sumaráhrif. Með því er átt við þá afturför í lestrarþróun barna sem á sér stað í sumarfríi þegar þau eru fjarri kennslustofu og njóta ekki markvissrar lestrarkennslu.

Áhrifin eru mun meiri en margann grunar. Rannsóknir hafa sýnt að afturför í lestrarfærni getur numið einum til þremur mánuðum yfir sumarið. Þannig má segja að um leið og stigin eru tvö skref áfram er á sama tíma eitt stigið aftur. Færð hafa verið rök fyrir því að uppsöfnuð sumaráhrif við lok 6. bekkjar geti numið allt að eins og hálfs árs afturför í lestrarfærni. Lestrarleysi yfir sumartímann hefur einnig áhrif á vöxt orðaforða og getu til að takast á við næsta bekk eða námstig.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er auðvelt að sprorna gegn þessu, sérstaklega ef foreldrar eru meðvitaðir um áhrifin.

Rannsóknir hafa sýnt að það ætti að vera nóg að lesa um 4-5 bækur yfir sumarið. Mikilvægt að grunnskólar og bókasöfnin vinni saman að því að draga sem mest úr sumaráhrifum með fjölbreyttum og margvíslegum hætti. Foreldrar eru helstu lestrarfyrirmyndir barna sinna og því ekki síst mikilvægt að foreldrar sýni gott fordæmi og taki sér lestrarbók í hönd í sumar. Það er mikilvægt að börnin fái verkfæri, leiðir, stuðning og eftirfylgni við lesturinn, bæði frá foreldrum og okkur á bókasafninu.

Til þess að ýta enn frekar undir þátttöku foreldra höfum við á bókasafninu sett saman nokkrar leiðir þar sem börn og fullorðnir geta notað og notið saman. Því til dæmis má nefna:

-       Sumarlestur

  • Barn og foreldri/forráðamaður koma saman á bókasafnið og gera samning við starfsmann um hversu margar bækur skuli lesa yfir sumarið. Eftir hverja lesna bók skrifar lestrarhesturinn stutta umsögn og gefur bókinni stjörnur eftir því hvernig þeim líkar bókin. Að tímabilinu loknu fá allir sem stóðu við samninginn viðurkenningarskjal og fara sjálfkrafa í verðlaunapott þar sem einn heppinn lestrarhestur hlýtur smá glaðning í lok sumars. Það er því til mikils að vinna. 

-       Bókaskjóður

  • Líkt og síðasta sumar verður hægt að nálgast bókaskjóður á bókasafninu. Bókaskjóður eru hálfgerðir óvissupokar sem innihalda lesbók um ákveðið efni ásamt skemmtilegum verkefnum og leikjum sem ættu að hrista upp í lestrinum. Skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna og tilvalið fyrir ferðalagið.

-       Sumarlestrarbingó

  • Sumarlestarbingó er skemtileg leið til að brjóta upp á lesturinn heima fyrir eða á ferðalögum í sumar, innan sem utanlands. Frábær leið fyrir foreldra til að hvetja börnin til lesturs.

 

Hægt er að skrá sig í sumarlestur á bókasafninu frá og með 1. júní og er átakið til 31. ágúst.

Lestur er bestur!

Sumarkveðjur frá starfsfólki Bókasafns Dalvíkurbyggðar!