Hjörtur Ármann Eiríksson kemur færandi hendi

 

Þann 6. júlí sl. var Héraðsskjalasafninu færð höfðingleg gjöf  Þetta voru 3 bækur veglegar mjög sem innihalda Fjallkonuna, blað sem gefið var út hálfsmánaðarlega  í Reykjavík árg. 1884 - 1899; Nýju öldina árg. 1897 - 1898; Bjarka árg. 1896 - 1897 og Landnemann - frjettir frá Canada og Íslendingum þar -  árg. 1891 - 1894.

Þetta er mikill fengur fyrir Héraðsskjalasafnið og þökkum við af alhug þann velvilja er Hjörtur Ármann Eiríksson sýnir safninu.  Hjörtur segir þessar bækur hafa verið í eigu afa síns Hjartar Guðmundssonar, sem bjó á Uppsölum 1878-1903 og var faðir Eiríks Hjartarsonar, sem var frumkvöðull í ræktunarmálum og gerði Hánefsstaðareitinn og síðar Grasagarðinn í Reykjavík.

Fleira hefur okkur borist að undanförnu, má þar nefna "Á bak við lás og slá" blað sem gefið var út á árunum 1996 - 2000 af nokkrum starfsmönnum Samherja á Dalvík.  Inn í þetta safn vantar 3-4 blöð svo að ef einhverjir eiga blöð og vilja láta af hendi væri það afar vel þegið.

Einnig höfum við fengið teikningu af útgerðarstöð Jóhanns Jónssonar frá Jaðri og ýmislegt fleira.  Eru öllum þessum aðilum færðar bestu þakkir og hvetjum um leið alla til að hugsa hlýlega til okkar, þegar farið er yfir skjöl og myndir sem geyma liðna tíð.