Breytingar á nýju ári

Breytingar á nýju ári

Frá og með 1. janúar 2014 verða útlán á bókasafninu á Dalvík án endurgjalds fyrir alla þá sem eiga lögheimili innan Dalvíkurbyggðar. Hingað til hafa börn, eldri borgarar og öryrkjar ekki greitt árgjald en eftirleiðis verða allir íbúar settir undir sama hatt.  Dagsektir vegna vanskila á gögnum munu hins vegar hækka um helming þ.e. frá því að vera kr. 20 á dag í kr. 40. Tekjur af því munu vega upp á móti skerðingu vegna árgjaldanna en það er í höndum hvers og eins. Skilvís lánþegi á ekki að þurfa að greiða neitt.

Við það að enginn þarf að greiða árgjald vill starfsfólk bókasafnins einnig leggja áherslu á að það er ekki við hæfi að einstaklingur fái lánuð gögn í nafni annars en sjálfs sín. Hver og einn á að bera ábyrgð á sínum útlánum en foreldrar þurfa þó að vera ábyrgðarmenn fyrir útlán barna innan 18 ára aldurs.

Ný útlánakort verða sett í umferð á árinu og er hægt að nota þau kort á flestum bókasöfnum landsins, skólum, almenningssöfnum, framhaldsskólum svo framarlega sem viðkomandi er tengdur lánþegi á safninu. Dæmi: Nemandi í framhaldsskóla sem á lögheimili í Dalvíkurbyggð getur notað kortið sitt frá Bókasafninu á Dalvík í skólanum og á almenningssafni þess sveitarfélags sem hýsir skólann.  

Það sem þó mestu máli skiptir er að allir líti á bókasafnið sem sameiginlega eign okkar allra og nýti það sem mest og best á árinu 2014. Verið öll velkomin á bókasafnið og þið sem ekki getið komið - látið heyra frá ykkur og við færum ykkur glaðing í formi, bóka, tímarita, hljóðbóka og dvd-diska.

Hlökkum til að sjá ykkur öll á nýja árinu - Laufey, Rósa og Jolanta