Gluggi 2: Opið á bókasafninu!

Gluggi 2: Opið á bókasafninu!

Jólamenning - talið niður í jólin 

Gluggi nr. 2

 
Í dag boðum við fagnaðarerindi mikið – á morgun, fimmtudaginn 3. desember ætlum við að opna bókasafnið á ný eftir tæpar 5 vikur af lokun. Þar sem bókasöfnum hefur ekki verið gert skylt að loka og við höfum fengið tíma til að skipuleggja starfið og jafna okkur á hæstu öldunum á okkar svæði, metum við það svo að við getum opnað að nýju. Við förum að sjálfsögðu varlega af stað og tökum einn dag í einu.
 
Opnunin verður háð miklum takmörkunum, aðeins 10 manns geta verið í húsinu á hverjum tíma og biðjum við gesti því að ganga hreint til verks og forðast að snerta fleiri fleti en það nauðsynlega þarf. Gestir eru jafnframt beðnir um að lágmarka tímann sem þeir dvelja á bókasafninu hverju sinni og aðeins verður hægt að kaupa kaffi í ferðamáli – ekkert smurt brauð eða “braserí” í eldhúsinu verður í boði fyrst um sinn. Ítrustu sóttvörnum verður að sjálfsögðu gætt og biðjum við gesti að sinna sínum persónulegu sóttvörnum á móti.
 
Það verður áfram hægt að skila bókum á borð í forstofunni og eins panta bækur og sækja. Við munum reyna að þjónusta fólk áfram með bókaskutli eftir fremsta megni, en við hvetjum fólk til að sækja bækurnar frekar sjálft ef það getur – einfaldlega til þess að létta aðeins á starfsmönnum bókasafnsins sem hafa í nógu að snúast þessa dagana.
 
Sjáumst á morgun og næstu daga ❤