Gluggi 4: Fözzarafésbók

Gluggi 4: Fözzarafésbók

Jólamenning - talið niður í jólin 

Gluggi nr. 4

 
Það getur verið auðvelt að gleyma því hvaða dagur er þegar jólaandinn, snjórinn og tilhlökkunin er farin að rugla mann í rýminu. Það gleður okkur því að minna ykkur á að í dag er FÖSTUDAGUR!
 
Laugardaginn 5. desember opnar ný sýning í sal Menningarhússins Bergs – sýningin ber heitið: Systralag II/Sisterhood II og er eftir listakonuna Bergþóru Jónsdóttur. Húsið opnar kl. 13.00, sýningin opnar síðan klukkutíma síðar. Vegna takmarkanna geta aðeins 10 manns verið í salnum hverju sinni – við höldum rýmunum aðskyldum svo að þó það sé fullt inn á sýninguna verður hægt að koma á bókasafnið til að skila og taka bækur. Sýningin verður opin út janúar svo það er óþarfi að örvænta, allir ættu að geta komið og tekið inn þessa frábæru sýningu.
 
Kaffihúsið verður áfram lokað nema fólk óski eftir því að kaupa drykki eða kaffi í ferðamál.
 
Við ítrekum að það er grímuskylda í húsið, við minnum fólk á nauðsyn þess að gæta vel að persónulegum sóttvörnum og sína tillitsemi varðandi það hversu löngum tíma það eyðir á safninu, sérstaklega ef aðrir eru að bíða.
 
Við erum mjög spennt að fá fólk í húsið, en að því sögðu förum við varlega í sakirnar og forðumst að taka óþarfa áhættur.
 
Við erum öll í þessu saman – þetta er ekki spretthlaup... þetta er fyrir löngu orðið maraþon en við ætlum að klára það öll saman í knúsi á endastöðinni ❤