Gluggi 3: Jólatré frá 1945

Gluggi 3: Jólatré frá 1945

Jólamenning - talið niður í jólin 

Gluggi nr. 3

 

Vissir þú að Byggðasafnið Hvoll skráir sína muni í Sarp sem er menningarsögulegt gagnasafn á landsvísu. Skráning er enn í fullum gangi og mun eflaust standa yfir í mörg ár til viðbótar. Skráning muna er órjúfandi þáttur af öllu safnastarfi og er þar af leiðandi í sífelldri þróun og vinnslu.

Í Sarpi eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni. Undanfarin ár hafa þau söfn og stofnanir, sem eru aðilar að Sarpi, skráð rúmlega eina milljón færslna í gagnasafnið sem varðveitt er á svonefndum innri vef. Meirihluti þeirra er nú aðgengilegur á þessum vef, ytri vefnum - það sem gestir geta skoðað.

Einn af þeim munum sem skráður er Sarpinn frá Hvoli er þetta jólatré. Gefandi var Petrína Zophoníasdóttir en tréið smíðaði Sveinn Jóhannsson í kringum árið 1945. Tréið er smíðað úr við og skreytt með hjörtum úr pappa.

Við undirbúning jólanna er öllum hollt að líta til baka, ýminda sér tíma þegar neysluhyggjan var minni, áherslurnar aðrar og tækifærin ekki af sama toga og þekkjast í dag. Ef árið 2020 hefur kennt okkur eitthvað, þá er það að njóta þess sem við höfum, sýna þakklæti og taka öllu því sem að okkur ber - þó það sé ekki akkúrat það sem við sáum fyrir okkur í upphafi árs. Við hvetjum ykkur eindregið til að kíkja inn á Sarpinn - finna þar Byggðasafnið Hvol og fletta í gegnum þá fjölmörgu gripi sem þegar eru skráðir, meðal annars þennan hér (við biðjumst afsökunar á því hvað myndin er óskýr - við reynum að laga það sem fyrst).