97. fundur í stjórn Menningarfélagsins Bergs ses.
Haldinn í Bergi 8. september 2020. Fundur hófst kl. 16:00.
Mætt: Freyr Antonsson, Dóróþea Reimarsdóttir, Gunnþór E. Gunnþórsson, Björk Hólm Þorsteinsdóttir og Íris Hauksdóttir sem fór af fundi klukkan 17:00. Kristjana boðaði forföll.
Dagskrá:
Farið yfir viðburðadagatalið fram til áramóta. Viðburðir eru að byrja að tínast inn. Einnig var farið yfir fjárhagsstöðuna sem er ekki áhyggjuefni þrátt fyrir þær fjárfestingar sem gerðar hafa verið og lítil umsvif sem verið hafa í húsinu. Miklar umræður sköpuðust um möguleikana varðandi kaffihúsið. Í ljósi aðstæðna er niðurstaðan að halda að sér höndum framan af vetri og bjóða upp á kaffi úr vél þar til hálfri klukkustund fyrir lokun en uppáhellt kaffi verði hægt að fá á meðan húsið er opið. Hafa einfaldleikann að leiðarljósi í bili sem þýðir að veitingar verða einungis eitthvað tilbúið sem auðvelt er að framreiða strax. Starfsmenn bókasafns hafa síðustu vikur sinnt kaffihúsinu en það gengur ekki til lengdar nema með viðbótar stöðuhlutfalli. Forstöðumanni falið að kanna hvort einhverjir af núverandi starfsmönnum hússins væru fúsir til að hækka stöðuhlutfall sitt lítilsháttar til að mæta þörf kaffihússins. Þrif verða í tímavinnu a.m.k. til ármóta, leyst af þeim einstaklingi sem sinnt hefur þeim að undanförnu. Endurskoða stöðuna um áramót bæði hvað varðar kaffihúsið og þrifin.
Skerpa þarf á nokkrum atriðum varðandi hið nýja fyrirkomulag á sölu veitinga í Bergi, s.s. því að þeir sem selja veitingar í húsinu eru þar í umboði Menningarfélagsins Bergs sem hefur veitingaleyfið. Formanni og forstöðumanni falið að ganga frá texta og birta hann á heimasíðunni.
Fyrsta eða annan föstudag í október er stefnt að áður ákveðnum kynningardegi á því hvað húsið býður upp á og til að afla fjár vegna þeirra breytinga sem ráðist var í á eldhúsinu nú í sumar. Formanni og forstöðumanni falið að útfæra þetta nánar í samræmi við umræður á fundinum með áherslu á að þennan dag verði eldað að mestu úr hráefni sem framleitt er í sveitarfélaginu. Hugmynd kom fram um að í september á næsta ári væri áhugavert að bjóða upp á uppskeruhátið í Bergi.
Viðburðir verði allir settir inn á heimasíðu Menningarhússins Bergs, á Facebooksíðu Bergs og Instagramsíðu hússins sem og inn á viðburðardagatal Dalvíkurbyggðar. Forstöðumaður auglýsir á næstunni lausa daga fyrir viðburði í húsinu til áramóta. Um miðjan nóvember verður opnað fyrir umsóknir fyrir tímabilið janúar-apríl með umsóknarfresti til 1. desember.
Fundi slitið kl. 18:30.