Klassík í Bergi

Frá árinu 2011 hefur Menningarfélagið Berg ses. staðið fyrir metnaðarfullri tónleikaröð í menningarhúsinu Bergi á Dalvík undir nafninu Klassík í Bergi. Á tónleikunum hafa komið fram nokkrir af fremstu tónlistarmönnum landsins. Salurinn í Bergi er sérhannaður til flutnings á órafmagnaðri tónlist auk þess sem þar er Bösendorfer flygill.

Salurinn í Bergi tekur um 170-180 gesti í sæti og er nálægð við áheyrendur því einn af kostum hans. Til að undirstrika og nýta þennan kost hafa flytjendur í tónleikaröðinni rætt við áheyrendur á milli verka og veitt þeim þannig innsýn í tónlistina sem þeir flytja, hver með sínum persónulega hætti. Þannig fá áheyrendur að kynnast tónlistarmönnunum og verkunum nánar en gengur og gerist á hefðbundnum klassískum tónleikum.

Menningarfélagið vill með þessari tónleikaröð veita fólki tækifæri til að njóta hluta af því besta sem íslenskt tónlistarlíf hefur upp á bjóða við þær kjöraðstæður sem salurinn í Bergi býður uppá.