Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð

Í Dalvíkurbyggð er fjölskrúðugt menningarlíf. Leikfélag Dalvíkur er öflugt áhugaleikfélag sem hefur sett upp eina sýningu ár hvert undanfarin ár. Leikfélagið starfar einnig náið með elstu bekkjum grunnskólans og býður nemendum þar upp á aðstöðu og aðstoð við að setja upp leiksýningar. 

Fjölmargir kórar eru á svæðinu, kvennakór, karlakór og blandaðir kórar auk barnakórs og kórs aldraðra. Allir þessir kórar hafa reglulega sett upp tónleika auk þess að koma fram við fjölmörg tækifæri. Auk þess eigum við marga frambærilega listamenn á mörgum sviðum.

Svarfdælskur mars er menningarhátíð haldin í mars á hverju ári þar sem sitthvað er til gamans gert. Fastir liðir hátíðarinnar eru Svarfdælskur mars og brús keppnin, en auk þeirra eru ýmsir menningarviðburðir á dagskrá.

Fiskidagurinn mikli er annar viðburður sem skipar fastan sess í bæjarlífinu en hann er haldinn í ágúst ár hvert, helgina eftir verslunarmannahelgi. Fiskidagurinn mikli er haldinn til dýrðar okkar frábæra fiski en fjölbreytt dagskrá er í boði frá fimmtudegi og fram á sunnudag. Aðaldagurinn er laugardagurinn, en þá er sannkölluð matarfiskiveisla í boði á aðalsvæðinu.