Sykur & rjómi Bergi

Sykur & rjómi munu flytja dísæta söngdúetta í Bergi föstdaginn 5. ágúst kl. 15:00 þar sem sveitarómantíkin svífur yfir vötnum auk vel valinna einsöngslaga

Sykur & rjómi samanstendur af Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur píanóleikara, Pétri Húna Björnssyni tenór og Jóni Svavari Jósefssyni baritón.

Upphaf þessa samstarfs var þegar Pétur og Jón Svavar sungu saman á tónleikum til heiðurs Jóhanni Daníelssyni í janúar síðastliðnum, nokkra af þeim dúettum sem eru á dagskránni núna. Þau hafa flutt söngdagskrána við góðan orðstír, á Café Rosenberg, í Fríkirkjunni í Reykjavík, í Vík í Mýrdal og í sumartónleikaröð Stykkishólmskirkju.

Dúettarnir sem fluttir eru heyrast því miður fæstir í dag en voru þeim mun vinsælli um miðbik síðustu aldar og vekja eflaust góðar minningar meðal þeirra sem hafa aldur og minni til, og eiga svo sannarlega erindi við yngri áheyrendur líka. Þar má til dæmis nefna Rauðasta rósin, Stefnumót og Á vegamótum.

Sjá má og heyra tóndæmi á YouTube (http://www.youtube.com/user/SykurogRjomi ). Þar er nú þegar stutt klippa sem flutt var í lok fréttatíma RÚV 13. febrúar sl.

* Guðrún Dalía stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og hélt árið 2003 til náms við Staatliche Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Stuttgart og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn sumarið 2007. Stundaði svo framhaldsnám hjá Thérèse Dussaut í París.

* Pétur útskrifaðist úr Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2010. Hann hefur m.a sungið með Karlakór Reykjavíkur, Hljómeyki, Mótettukórnum, karlakórnum Voces masculorum og kór Íslensku Óperunnar. Pétur er auk þess kvæðamaður og hefur komið fram hér heima og erlendis við rímnakveðskap.

* Jón Svavar útskrifaðist árið 2007 frá óperudeild Universität für Musik und darstellende Kunst í Vín. Hann hefur starfað sem tónlistarmaður á Íslandi undanfarin ár, haldið einsöngstónleika og hefur m.a sungið í Íslensku Óperunni og sungið einsöng með Sinfóníuhljómsveit Íslands í tvígang á þessu ári.


Athugasemdir