Sungið á selló - Sæunn Þorsteinsdóttir og Sam Armstrong á fyrstu tónleikum Klassík í Bergi þennan veturinn

Sungið á selló - Sæunn Þorsteinsdóttir og Sam Armstrong á fyrstu tónleikum Klassík í Bergi þennan ve…

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari sem búsett er í New York heldur tónleika í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík, milli þess sem hún kemur fram í öðrum virtum tónleikasölum veraldarinnar, svo sem Carnegie Hall og Disney Hall. Með henni til landsins kemur önnur stjarna af yngri kynslóðinni, píanóleikarinn Sam Armstrong sem sömuleiðis er orðinn tíður gestur í ekki síður nafntoguðum tónleikasölum en Sæunn, þeirra á meðal Wigmar Hall og Concertgebouw.
Þau munu flytja fjölbreytta efnisskrá verka eftir Martinu, Britten, Beethoven og Brahms.


Nýútgefin upptaka Sæunnar á verkum Brittens hefur vakið athygli útí í hinum stóra tónleikaheimi, en eftir Beethoven flytja þau Sam tilbrigði við stef eftir Mozart; Bei Männern.


Eftir Brahms munu hljóma útsetningar á sönglögum hans fyrir selló og píanó.
Tónleikunum lýkur með tilbrigðum við stef ítalska óperuhöfundarins Rossinis, sem unnin eru af Martinu.


Tónleikarnir eru þeir fyrstu í tónleikaröðinni Klassík í Bergi þennan veturinn, þar sem áhersla er lögð á persónulega nálægð flytjenda og áheyrenda. Sæunn mun ræðu um verkin sem flutt eru og kynna þau þannig fyrir áheyrendum.
Þrjú verkanna á efnisskrá Sæunnar og Sams Armstrongs eru byggð á söngverkum og því er ekki fjarri sanni að segja að í Bergi á Dalvík verði Sungið á selló, laugardaginn 12. janúar kl.16:00.


Athugasemdir