Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu september mánaðar en henni lýkur á morgun. Þetta er sýning á hugmyndum um framtíðar skipulag Dalvíkur  –skólaverkefni Árna Steinars Jóhannssonar og félaga úr Konunglega landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1976.

Samhliða því að SAMGUS, samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga, Dalvíkurbyggð og RARIK, heiðra minningu Árna Steinars Jóhannssonar, umhverfisstjóra og fv. Alþingismanns með opnun minningarreitar um hann í Láginni á Dalvík verður opnuð sýning í Bergi menningarhúsi á skólaverkefnum Árna og samnemenda hans úr Den Kongelige Veterinær & Landbohojskole – Afdælingfor have & landskab í Kaupmannahöfn. Verkefnin voru unnin á Dalvík 1976.

 Verkefnið er sem fyrr segir skólaverkefni nokkurra nema frá Skandinavíu en hugmyndirnar endurspegla að miklu leiti raunveruleika aðstæðna frá þeirra heimaslóðum hvað varðar veðurfar og notkun á gróðri. Að nokkru leiti eru tillögurnar byggðar á umræðum sem átt höfðu sér stað í sveitarfélaginu um framtíðar uppbyggingu og þróun byggðar Dalvíkur, fyrst og fremst út frá því hvernig uppbygging hafnarsvæðis yrði. Ljóst má vera að vinna hópsins hefur orðið kveikjan að umræðu um notkun trjágróðurs og aðgengi gangandi og hjólandi fólks um bæinn og að náttúrulegum svæðum í jaðri hans.