Nýr framkvæmdastjóri í Bergi menningarhúsi á Dalvík

Nýr framkvæmdastjóri í Bergi menningarhúsi á Dalvík

Íris Daníelsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri menningarhússins Bergs á Dalvík og tók hún til starfa nú um áramótin. Margrét Víkingsdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri hússins frá opnun árið 2009, fer nú aftur í fulla stöðu upplýsingafulltrúa Dalvíkurbyggðar, en hún hefur gegnt báðum störfunum sem hlutastörfum.

Menningarhúsið Berg á Dalvík var formlega tekið í notkun 5. ágúst 2009. Húsið er glæsileg umgjörð utanum hverskonar menningarstarfsemi, sýningar, tónleika, ráðstefnur og fleira. Í Bergi er Bókasafn Dalvíkurbyggðar, kaffihús og fjölnota salur sem tekur 160 manns í sæti. Anddyrið sjálft er opið með fallegu útsýni yfir höfnina og út Eyjafjörð. Þar er hægt að setjast niður, fá sér kaffi á Kaffihúsinu, lesa blöðin og fara á netið. Það býður einnig upp á möguleika á uppsetningum á minni sýningum, uppákomum og móttökum. Í húsinu eru aðgengilegar upplýsingar fyrir ferðamenn á svæðinu.

Íris er menntaður viðskiptafræðingur með áherslu á markaðsmál. Hún hefur sinnt ýmsum störfum sem koma til með að nýtast henni vel í þeim verkefnum sem framundan eru í Bergi. Íris er búsett á Dalvík með sinni fjölskyldu.

Athugasemdir