Helga Kristín Sæbjörnsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Menningarfélagsins Bergs til áramóta.

Helga Kristín og Freyr Antonsson formaður Menningarfélagsins Bergs.
Helga Kristín og Freyr Antonsson formaður Menningarfélagsins Bergs.

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Menningarfélagsins Bergs ses til áramóta. Blikur eru á lofti varðandi heildarskipulag Menningarfélagsins og því ráðist í tímabundna ráðningu. Helga Kristín þekkir ágætlega til starfsemi hússins en hún starfaði í vetur í afleysingum á Söfnum Dalvíkurbyggðar og þá mest á bókasafni. Tíðir gestir hússins gætu því kannast við Helgu og ættu því ekki að kippa sér upp við það þó sjáist til hennar á handahlaupum.

 

Helga Kristín fluttist til Dalvíkur frá Laugarvatni ásamt fjölskyldu sinni síðasta sumar en þar hafði hún meðal annars starfað sem kennari, sem og við fag- og verkefnastjórn við Menntaskólann að Laugarvatni. Auk þess hefur hún unnið að verkefnastjórn ýmissa verkefna fyrir einstaklinga og fyrirtæki á suðvesturhorninu.

Um leið og við þökkum Jóhanni Má fyrir samstarfið í vetur bjóðum við Helgu Kristínu velkomna til starfa. Við erum spennt fyrir komandi misserum og hlökkum til að gæða húsinu lífi eftir takmarkanir síðustu tveggja ára.

Athugasemdir