HEIM - sýning á verkum Valgerðar Hafstað

Sýning HEIM - sýning á verkum Valgerðar Hafstað, opnaði í Bergi menningarhúsi síðastliðinn laugardag, 7.júlí. Sýningin er opin alla virka daga frá kl. 10:00-18:00 og frá kl. 12:00-17:00 um helgar.

VALGERÐUR ÁRNADÓTTIR HAFSTAÐ fæddist í Vík í Skagafirði 1. júní 1930, yngst tíu systkina. Hún lærði myndlist við Akademi for fri og merkantil kunst í Kaupmannahöfn 1947‐48, en var í Myndlista‐ og handíðaskóa Íslands á árunum 1948‐50. Hún fór til frekara náms til Parísar árið 1951. Þar lærði hún málun og mósaík við Academie de la Grande Chaumiere og Atelier Severini og eftir það gerð steindra glugga í Atelier Barrilet.

Í Frakklandi kynntist hún eiginmanni sínum, André Énard myndlistarmanni og giftu þau sig í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal í ágúst 1958. Þau settust að í Frakklandi og bjuggu skammt frá París en fluttu til New York með syni sína þrjá 1974 þar sem þau stunduðu kennslu samhliða listmálun. Synir þeirra hjóna eru Árna Olivier, Grím André og Halldór Yves. André lést í New York haustið 2010 en Valgerður lést á Borgarspítalanum 9. mars 2011. Þá var hún nýflutt til Íslands, eftir margra ára búsetu erlendis, og var á leið til dvalar á Dalbæ, dvalarheimilinu á Dalvík.

Valgerður hélt fjölda einkasýninga á Íslandi og New York og tók þátt í mörgum samsýningum hér á landi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Af verkum Valgerðar á Íslandi má nefna steinda glugga í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal og veggskreytingu í Varmahlíðarskóla í Skagafirði auk fjölda málverka í einkaeigu.

Listamaðurinn Valgerður
Að ósekju hefur framlag Valgerðar Hafstað til íslenskrar abstraktlistar farið framhjá mörgum þeim sem láta sig varða myndlistarsögu okkar. Þó bendir margt til þess að hún hafi verið meðal fyrstu myndlistarmanna á landinu til að tileinka sér strangflatalist, það sem Frakkar kölluðu „art concret". Til að mynda er ég með undir höndum myndir af því tagi eftir Valgerði frá árunum 1952‐54, frá því hún var í framhaldsnámi í helstu útungunarstöð íslenskrar strangflatalistar, Academie de la Grande Chaumiére í París. Í kjölfarið fylgdu ljóðrænar abstraktmyndir sem einnig eru merkilegur hluti af þróunarsögu íslenskrar myndlistar á sjötta og sjöunda áratugnum. Langdvalir Valgerðar í París og New York hafa eflaust orðið til að slæva vitund samlanda hennar um framvinduna í málaralist hennar. Að auki eru abstraktverk hennar ekki í samræmi við þá staðalímynd af íslensku strangflatalistinni og ljóðrænu myndlistinni sem menn hafa gert sér. Fyrstu abstraktmyndir hennar eru byggðar upp með öðrum hætti en þorri þeirra íslensku abstraktverka sem urðu til í deiglunni miklu í París; rými er þar skilgreint á annan veg, litir eru öðruvísi og heitari og hrynjandi af öðrum toga. Muninn er erfitt að skýra á prenti, en hann sést berlega þegar bornar eru saman
samtíma myndir Valgerðar annars vegar og Valtýs Péturssonar hins vegar.

En þótt Valgerður hafi, eins og margir starfsbræður hennar og systur, gengið í gegnum hreinsunareld strangflatalistar, er hún að upplagi ljóðrænn listamaður, höll undir skyndilegar hugdettur og hraða úrvinnslu.

En kvik, þokkafull og tilfinningarík verk hennar fara aldrei úr böndunum, heldur lúta þau ævinlega myndrænum aga, breytilegum frá mynd til myndar. Stundum hlaðast margbrotnir pensildrættir hennar upp í klasa, eins og fergjað torf, eða deilast niður í ferhyrndar einingar vítt og breitt um ljósmettaðan myndflötinn. Þannig tekst listakonunni að fara bil beggja milli frjálsræðis og þaulskipulags. Og aukin áherslan á skipulag í síðari myndum hennar, fyrirkomulag sem á stundum jaðrar við naumhyggju, held ég að sé áhrif frá amerískri myndlist.

Athugasemdir