Frábært veður til að skoða sýningar

Frábært veður til að skoða sýningar

Í Bergi menningarhúsi stendur yfir sýning á verkum Einars Emilssonar myndlistamanns en Einar lést árið 2004 aðeins 51 árs að aldri. Sýningin er þverskurður af verkum Einars.


Í upphafi ferilsins vann Einar mest með pastel en síðar á ferlinum vann hann jöfnum höndum með pastel, olíu og akríl.


Verkin er fjölbreytt, eins og sést á sýningunni, en Einar vann mikið í landslagstengdum verkum. Eins var mannslíkaminn honum hugleikinn og eru nokkur verk tengd honum til sýnis.


Eins og áður sagði spannar sýningin stærstan hluta ferils Einars og meðal annars eru til sýnis skissubækur sem sýna glöggt hvernig hann hefur unnið grunninn að verkum sýnum. Til gamans má geta að í samstarfi við Guðmund Inga í Víkurprent málaði hann jólakort sem voru síðan prentuð í prentsmiðjunni og seld hér í Dalvíkurbyggð fyrir jólin. Í skissubókunum má sjá sumar frummyndir af þeim kortum, t.d. kirkjumyndir. Þegar Einar féll frá tók annar myndlistamaður við keflinu, Vignir Þór Hallgrímsson, og hélt hefðinni að mála jólakort gangandi.


Það er tilvalið að nýta þetta frábæra sýningaveður sem nú er og skoða þessa sýningu með verkum Einars í Bergi menningarhúsi.

Athugasemdir