Fiskidagsvikan í Bergi

Fiskidagsvikan í Bergi er óðum að taka á sig mynd og er að verða virkilega áhugaverð. Nánar má lesa um hvern viðburð fyrir sig á heimasíðu Menningarhússins Bergs: https://www.dalvikurbyggd.is/berg

Fimmtudaginn  9. ágúst milli kl. 12.00 og 13.00 standa Menningarhúsið Berg, Bókasafn Dalvíkurbyggðar og Fiskidagurinn mikli fyrir hádegistakti (Lunch beat) í salnum í Bergi. Allir hvattir til að mæta og frítt inn.

Fimmtudagskvöldið klukkan 20:30 mætir Eyþór Ingi  en hann er án efa einn af okkar fremstu söngvurum í dag. Hann hefur einnig getið sér gott orð fyrir að vera mögnuð eftirherma. Hér er á ferðinni alveg hreint mögnuð blanda af þessu tvennu og gott betur. Eyþór hefur farið sigurför um landið, einn síns liðs, með píanóið, gítarinn og röddina að vopni. Forsala miða er á miði.is og í síma 8689393.

Föstudaginn 10. ágúst klukkan 12:15 verða hádegistónleikar sem bera yfirskriftina Blikandi haf. En þar kemur fram tónlistarhópurinn Vor sem er skipaður 3 íslenskum listamönnum sem starfað hafa saman um árabil. Það eru Egill Árni Pálsson – tenor, Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir – sópran og Hrönn Þráinsdóttir – píanó. Miðasala við innganginn.

Föstudagskvöld kl. 22:30 (eftir súpukvöldið) mæta Vandræðaskáldin í Berg með sinn kolsvarta húmor og hárbeitta grín, segja sögur og syngja sín vinsælustu lög. Þeim er ekkert mannlegt óviðkomandi, nema ef það er leiðinlegt, og fjalla óhikað um lífið, ástina og dauðann, eins og þeim einum er lagið. Forsala miða í síma 8689393.

Jóna Bergdal myndlistakona frá Akureyri opnar sýningu 4. ágúst kl. 14:00. Jóna hefur fengist við ýmiskonar tækni og mikið notað akríl og olíu í sínum verkum en síðustu ár hafa vatnslitir átt hug hennar og hjarta. Sýningin verður opin út ágúst.