Brotið - heimildarmynd um sjóskaða á Dalvík 1963

Miðvikudaginn 7. ágúst kl. 21:00 verður brot úr heimildarmyndinni Brotið sýnt í Bergi.  Brotið fjallar um hræðilegt sjóslys sem átti sér stað 9. apríl 1963. Hér að neðan má lesa nánar um heimildarmyndina.

Brotið - Kvikmynd um sjóskaða á Dalvík

Sjómaður, dáðadrengur. Óteljandi eru þau ljóð og lausavísur sem til eru um sjómannslífið. Allt frá þessu fjöruga, dillandi lagi sem ber með sér sól og sumar, yfir í myrkustu ljóð sem nánast draga lesandann með sér niður í kolsvart djúpið. Það má ímynda sér að það hafi örlað á fyrirheiti um bjart og fallegt sumar þegar Dalvíkurbátar létu úr höfn aðfararnótt 9. apríl 1963 „í hvítalogni“ eins og einn viðmælenda kvikmyndargerðarfólksins í Brotinu orðaði það. Þó fór svo að veðrið breyttist fyrirvaralaust og olli miklum sjósköðum fyrir norðan land og sunnan. Þyngsta höggið féll á samfélagið á Dalvík.  

Mynd um samfélag í blíðu og stríðu
Eins og kunnugt er, eftir afhjúpun minningarsteins þann 9. apríl síðastliðinn um þá sem fórust í þessu óveðri, hafa þau Haukur Sigvaldason og María Jónsdóttir frá Dalvík, ásamt Stefáni Loftssyni kvikmyndatökumanni, hafið gerð heimildarmyndar um þennan hrikalega atburð. Í myndinni er fjallað um bátana frá Dalvík sem fórust, þá sem komu að björgunaraðgerðum og þá sem eftir stóðu; dáðakonurnar, ekkjurnar, með ungu börnin.  Almennt er reynt að draga upp mynd af samfélagi í norðlensku sjávarþorpi fyrir fimmtíu árum í kjölfar slíks áfalls.  
Þannig var upplegg þremenninganna þegar farið var af stað með kvikmyndargerðina á síðasta ári en síðar bættust fleiri áhugaverðir þættir við sem ástæða þótti til að gera skil. Myndin verður því viðameiri í sniðum en áætlað var í fyrstu og kostnaður hefur aukist að sama skapi. Einnig hefur öflun og úrvinnsla myndefnis og grafíkur reynst mun umfangsmeiri en reiknað var með í upphafi.

Athugasemdir