Berg, Dalvík á eftir La Scala, Mílanó

Berg, Dalvík á eftir La Scala, Mílanó

Bassasöngvarinn Bjarni Thor þurfti að fresta tónleikum sínum í Bergi menningarhúsi , sem halda átti í nóvember síðastliðnum, eftir að hafa boðist að syngja á La Scala í Mílanó. Nú gefst fólki hins vegar tækifæri á að hlýða á söng Bjarna Thors við undirleik Ástríðar Öldu Sigurðardóttur píanóleikara í Bergi á Dalvík, laugardaginn 16. febrúar kl. 16:00

Bjarni er einn af kunnustu söngvurum Íslands í dag enda komið víða við. Meðal helstu óperuhlutverka Bjarna má nefna: Barón Ochs í Rósariddaranum, Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu, Pímen í Boris Godunow, Rocco í Fidelio, John Falstaff í Kátu konunum frá Windsor, van Bett í Zar und Zimmermann, að ógleymdum ýmsum hlutverkum í óperum Wagners, svosem Wotan í Rínargullinu og Pogner í Meistarasöngvurunum. Bjarni er nýkominn heim frá Ítalíu þar sem hann söng bassahlutverk í sálumessu Verdis í borginni Lecce.

Í Bergi flytja þau Bjarni Thor og Ástríður Alda dagskrána Læknirinn og ljósmyndarinn, þekkt íslensk sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns og Árna Þorsteinsson, auk laga sem sjaldan eða aldrei hafa heyrst.

          

Athugasemdir