Berg á Dalvík í samkeppni við La Scala í Mílanó - tónleikar Bjarna Thors frestast

Eftir að bassasöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson hafði verið ráðinn til að syngja í tónleikaröðinni Klassík í Bergi á Dalvík hafði La Scala óperuhúsið í Mílanó samband við Bjarna og réð hann til starfa þar. Af þessum sökum frestast tónleikar Bjarna Thors í Klassík í Bergi til 16. febrúar 2013.

Í Bergi ræða menn um að eftirleiðis verði að gæta þess að fara varlegar með upplýsingar um hverjir komi fram í Klassík í Bergi.

Þeir sem þegar hafa tryggt sér miða á tónleika Bjarna Thor eða áskriftarkort á tónleikaröðina Klassík í Bergi 2012-2013 munu því geta notið flutnings Bjarna Thor í febrúar á næsta ári.


Nánari upplýsingar um tónleikaröðina:

Tónleikaröðin Klassík í Bergi 2012-2013 er nú haldin í annað sinn og þar munu koma fram nokkrir af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar. Tónleikarnir verða allir á laugardögum og hefjast kl. 16:00.


Nálægð áheyrenda við flytjendur er mikil í tónleikasalnum í Bergi. Á tónleikunum verður þessi kostur salarins undirstrikaður því flytjendur munu gefa sér góðan tíma til að tala um verkin á milli þess sem þeir flytja tónlistina.


Sala áskriftarkorta fer fram á midi.is og í Bergi menningarhúsi. Sala stakra miða fer fram í Bergi menningarhúsi á Dalvík.


Klassík í Bergi 2012-2013 verður sem hér segir:
12. janúar, laugardagur kl. 16:00. Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari og Sam Armstrong píanóleikari.
16. febrúar,laugardagur kl. 16:00. Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari.
16. mars, laugardagur kl. 16:00. Peter Máté píanóleikari.

Um flytjendurna:


Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari
er fædd í Reykjavík árið 1984 og lagði ung stund á nám í sellóleik hjá Hauki Haraldssyni. Hún útskrifaðist með meistaragráðu frá Juilliard tónlistarháskólanum í New York árið 2008. Áður hafði hún lokið Bachelor gráðu frá Cleveland Institute of Music með hæstu einkunn. Sæunn hefur komið fram sem einleikari m.a. með Los Angeles Philharmonic, Des Moines Symphony, Silesian Philharmonic í Póllandi, Colombian Youth Philharmonic í Kólumbíu auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Sæunn býr nú í New York og hefur mikið komið fram í Bandaríkjunum og víða í Evrópu og hér heima sem flytjandi kammertónlistar, meðal annars með Itzhak Perlman, Kim Kashkashian, Mitsuko Uchida, Cavani kvartettinum, sem og meðlimum the Guarneri Quartet. Undanfarið hefur Sæunn verið meðlimur Ensemble ACJW sem kemur reglulega fram í Carnegie Hall. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, svo sem Janigro Family and Romanini Foundation verðlaunin við Antonio Janigro International Cello Competition í Sagreb og Zara Nelsova verðlaunin við Naumburg Competition í New York árið 2008.


Bjarni Thor Kristinsson er í hópi þeirra íslensku óperusöngvara sem náð hefur hvað lengst á erlendri grund. Eftir söngnám hér heima hélt Bjarni til frekara náms við óperudeild Tónlistarháskólans í Vín. Vorið 1997 var Bjarni síðan ráðinn sem aðalbassasöngvari Þjóðaróperunnar þar í borg. Þar var hann fastráðinn til þriggja ára og að þeim tíma liðnum sneri hann sér einungis að lausamennsku. Bjarna hefur sungið mikinn fjölda óperuhlutverka, en eftir að hann gerðist lausamaður í söng hefur hann verið fastur gestur í Ríkisóperunni í Berlín auk þess að koma fram í óperuhúsum í Chicago, París, Feneyjum, Verona, Flórenz, Palermo, Róm, Lissabon, Barcelona, Hamborg, Dresden, München, Wiesbaden, Karlsruhe og Dortmund svo eitthvað sé nefnt. Bjarni söng hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu hjá Íslensku óperunni haustið 2006 og fékk Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin, sem söngvari ársins fyrir hlutverkið. Framundan eru verkefni m.a. í Köln og Barcelona svo eitthvað sé nefnt.


Peter Máté píanóleikari er af ungversku bergi brotinn en fæddur í Rožňava í Tékkóslóvakíu. Hann stundaði píanónám frá unga aldri og lauk einleikara- og kennaramastersgráðu frá Tónlistarakademíunni í Prag. Á námsárunum vann hann til margra verðlauna í heimalandi sínu og síðar í alþjóðlegum keppnum, svo sem í Vercelli og Enna á Ítalíu 1986 og 1989.
Peter hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1990 og kennir nú við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hefur haldið einleikstónleika, leikið einleik með ýmsum sinfóníuhljómsveitum og tekið þátt í kammertónleikum (Tríó Reykjavíkur, Kammertríó Kópavogs) víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Síðastliðinn febrúar frumflutti Peter á Akureyri píanókonsert Jóns Ásgeirssonar ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Athugasemdir