Fréttir og fyrirkomulag í Bergi frá áramótum

Fréttir og fyrirkomulag í Bergi frá áramótum

Það má með sanni segja að ýmsar breytingar hafi orðið í Menningarhúsinu Bergi upp á síðkastið. Í lok síðasta árs var gegnið frá samkomulagi milli Dalvíkurbyggðar og Menningarfélagsins Berg ses. að yfirfæra rekstur Menningarhússins frá Menningarfélaginu til Dalvíkurbyggðar. Þessi breyting tók gildi frá og með 1. Janúar 2023 og hefur Björk Hólm Þorsteinsdóttir forstöðumaður safna tekið yfir forstöðu hússins.

Fram til áramóta gegndi Helga Kristín Sæbjörnsdóttir starfi framkvæmdarstjóra Menningarhússins og var henni í kjölfar breytinganna boðið starf verkefnastjóra til ársloka 2023. Starfið kemur til með að verða auglýst í lok ársins eins og venja er um ný störf innan sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið mun ekki koma til með að sækjast eftir veitinga- og vínveitingaleyfum á kaffihúsi og hyggst ekki standa sjálft að kaffihúsarekstri í húsinu. Aðstaða kaffihússins hefur verið auglýst opin til útboðs á vef Dalvíkurbyggðar. Má lesa nánar um það HÉR. Umsóknarfrestur rennur út 28. mars næstkomandi.

Við bindum miklar vonir við að fá skapandi og áhugasama rekstraraðila til að taka að sér veitingarekstur í Bergi sem verður þá hluti að fjölbreyttri þjónustu Dalvíkurbyggðar í húsinu þrátt fyrir það að standa sem sjálfstæð eining.

Þangað til að gengið hefur verið til samninga við nýja rekstraraðila á kaffihúsinu í Bergi mun veitingasala vera áfram í höndum Menningarfélagsins Bergs ses. (eins og verið hefur) og hefur félagið öll tilskilin leyfi til þeirrar starfsemi. Um leið og nýr rekstraraðili hefur fengist í Berg og gengið hefur verið frá tilskyldum leyfismálum lætur Menningarfélagið af umsjón kaffihússins og leggur niður öll þau leyfi sem á þau hafa í dag.

Í júlí árið 2020 byrjaði Menningarfélagið með nýtt fyrirkomulag á kaffihúsinu í Bergi. Ákveðið var að semja ekki við einn fastan rekstraraðila til lengri tíma heldur vinna með opnara fyrirkomulag til að fleiri fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína í húsinu. Þetta var ákveðið með það að leiðarljósi að glæða húsið fjölbreytni í veitingaframboði í samræmi við breytilegar listsýningar og fjölbreytta menningarviðburði í húsinu.

Fyrirkomulagið er að öll sala í húsinu fer í gegnum kassakerfi Menningarfélagsins og starfa síðan umsjónaraðilar í umboði félagsins. Menningarfélagið tekur 15% þóknun af seldum vörum og þjónustu og á þetta við um alla starfsemi í húsinu sem rekin er í gróðaskyni, s.s. sala á kaffihúsi/bar, tónleikar, listviðburðir, listsýningar og annað þar sem seldur er aðgangseyrir.

Þangað til að fastur rekstraraðili hefur tekið við kaffihúsinu í Bergi verður enn hægt að óska eftir að hafa tímabundna umsjón með kaffihúsinu undir áður nefndum formerkjum. Áhugasömum er bent á að setja sig í samband við stjórn Menningarfélagsins vilji þeir kynna sér þann kost betur. Til upplýsingar þá er Freyr Antonsson formaður Menningarfélagsins og hægt er að setja sig í samband við hann fyrir frekari upplýsingar um þetta fyrirkomulag.

 

Við minnum að sjálfsögðu á Svarfdælskan mars á morgun, laugardaginn 25. mars sem hefst kl. 14:00 í stóra salnum. Allir velkomnir og enginn aðgangseyrir. Að þessu sinni, líkt og áður, verður boðið upp á efnivið úr héraði ásamt tónlistaratriði. Það eru fyrirlesararnir Óskar Þór Halldórsson og Þórarinn Hjartarson sem verða með erindi, annars vegar um ritun 50 ára sögu Skíðafélagsins og 60 ára sögu Tréverks og hins vegar sögu Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar. Erla Kolbrúnardóttir og Gísli Rúnar Gylfason sjá um tónlistina.

Kaffi Klara verður með kaffihúsið í umboði Menningarfélagsins þennan dag og fjölbreyttar kræsingar á boðstólnum.

Það er síðan mikið fram undan hjá okkur í apríl. Páskar á næsta leiti og fjölbreytt framboð viðburða og afþreyingar í boði. Íbúar sveitarfélagsins mega vænta þess að fá inn um lúguna viðurðarstrimil fyrir apríl mánuð um miðbik næstu viku og hvetjum við alla til að vera duglegir að sækja það sem boðið er upp á í húsinu öllu.

Athugasemdir