Veirurnar í Bergi


Vorlauf er yfirskrift tónleika með ljóðaívafi sem haldnir verða í Menningarhúsinu Bergi Dalvík föstudaginn 13. apríl kl. 20:30. Það er Sönghópurinn Veirurnar og Eyþór Árnason ljóðskáld sem sameina krafta sína í þessari dagskrá. Stjórnandi sönghópsins er Guðbjörg R. Tryggvadóttir. Píanóleikari er Sólveig Anna Jónsdóttir. Efnisskráin er fjölbreytt, íslensk og erlend sönglög m.a. eftir Gunnstein Ólafsson, Jórunni Viðar, Hildigunni Rúnarsdóttur, Eyþór Stefánsson og Báru Grímsdóttur. Lög úr erlendu röðinni eru m.a. lög Andrew Lloyd Webber Think og me og Amigos para sempre og Londonderry Air, Puttin´on the Ritz, Happy day. Elma Atladóttir sópransöngkona syngur einsöngslög eftir Tryggva M. Baldvinsson. 

Sönghópurinn Veirurnar eru 18 manna kammerkór sem hefur sungið saman í yfir 20 ár. Veirurnar hafa gefið út tvo geisladiska, Stemning og Jólastemning.

Aðgangseyrir er kr. 1.500, ókeypis fyrir börn á barnaskólaaldri og eldri borgara. Það er von okkar að sem flestir mæti og njóti.


Guðbjörg R. Tryggvadóttir sópran er Akureyringur. Hún lauk burtfararprófi auk söngkennaraprófs frá Söngskólanum í Reykjavík og voru aðalkennarar hennar þau Magnús Jónsson og Þuríður Páls-dóttir auk undirleikaranna Hólmfríðar Sigurðardóttur og Iwonu Jagla. Framhaldsnám stundaði Guðbjörg í Kaupmannahöfn hjá prófessor André Orlowitz. Auk þess hefur hún sótt ýmis söngnámskeið, m.a. hjá Sigríði Ellu Magnúsdóttur, Kristjáni Jóhannssyni, Ulrich Eisenlohr, Aliciu Maestcur o.fl. Guðbjörg starfaði með Kór Íslensku óperunnar frá 1994 til 2002 og tók þátt í flestum uppfærslum óperunnar á því tímabili. Guðbjörg hefur víða komið fram sem einsöngvari, bæði hérlendis og erlendis, auk þess sem hún hefur haldið nokkra einsöngstónleika. Guðbjörg hefur kennt einsöng, raddþjálfað og stjórnað kórum um árabil.

Elma Atladóttir sópran er frá Ingjaldsstöðum í Þingeyjarsveit. Elma lauk burtfarar-prófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 1996 og söngkennaraprófi frá sama skóla árið 1998. Elma hefur verið félagi í Kór Íslensku óperunnar um árabil og tekið þátt í mörgum uppfærslum hennar. Meðal annars söng hún hlutverk smaladrengs í uppfærslu Óperunnar á Toscu nú í vetur og hefur komið fram sem einsöngvari við ýmis önnur tækifæri.


Sólveig Anna Jónsdóttir hóf píanónám á Ísafirði hjá Ragnari H. Ragnar en stundaði síðan nám við Tónlistarskólann á Akureyri, lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám við University of Houston í Texas. Hún hefur lengst af haft píanókennslu og meðleik að aðalstarfi og kennir nú við Tónlistarskóla Kópavogs.Sólveig Anna hefur haldið fjölda tónleika hérlendis og erlendis sem meðleikari einsöngvara og kóra, leikið kammertónlist af ýmsu tagi og tekið þátt í flutningi verka með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperunni og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún hefur verið píanóleikari Kvennakórs Garða-bæjar frá hausti 2007.

Eyþór Árnason er sviðsstjóri og ljóðskáld. Hann starfaði lengst af hjá Stöð 2 en er í dag sviðsstjóri Tónlistar- og menningarhússins Hörpu Reykjavík. Eftir Eyþór hafa komið út tvær ljóðabækur. Hann hlaut Bókmennta-verðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2009 fyrir ljóðabókina Hundgá úr annarri sveit og í haust kom út bókin Svo ég komi aftur að ágústmyrkrinu.


Athugasemdir