Útgáfuhóf

Það er komið að formlegri útgáfu Svarfdælasýsls nk. fimmtudag 12. október, í Bergi á Dalvík kl. 20:30. Þar verður bókin kynnt og einnig verður hún til sölu. 

Allir eru að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir í þessi útgáfuhóf og gaman væri að sjá sem allra flesta. Þetta er tími uppskeru eftir margar síðkvöldastundir við grúsk og skriftir og þá er ástæða til þess að gleðjast og eiga góða stund.

Óskar Þór Halldórsson skrifar bókina að mestum hluta ásamt Atla Rúnari Halldórssyni bróður sínum. 

Þrír meginkaflar eru í bókinni; saga svokallaðrar Göngustaðasystkina í Svarfaðardal. Áhrifamikil saga í gleði og sorg. Annar kafli fjallar um aðdraganda og gerð kvikmyndarinnar Lands og sona í Svarfaðardal sumarið 1979 og þriðji kaflinn rekur sögu Húabakkaskóla í Svarfaðardal frá upphafi til enda - fimmtíu ára saga frá 1955 til 2005.

Eitt er að skrifa söguna, annað er að safna ljósmyndum sem styðja frásögnina. Bókin er um 560 blaðsíður að stærð og hana prýða um 500 ljósmyndir. Ómetanlegar perlur sem að fólk á eftir að liggja yfir.

Það kom vissulega til greina að fá eitthvert forlag til þess að gefa bókina út en niðurstaðan var sú að systkinin sex frá Jarðbrú í Svarfaðardal stofnuðu forlagið Svarfdælasýsl forlag sf um útgáfu bókarinnar.

Í tengslum við útgáfuna verður opnaður síðar í vikunni sérstakur forlagsvefur vegna útgáfunnar - í tengslum við vefsetur Atla Rúnars Halldórssonar - svarfdaelasysl.com - þar sem m.a. verður hægt að panta bókina og fá hana senda. Einnig verður þar fjöldi ljósmynda sem tengjast umfjöllunarefninu bókarinnar sem ekki var rými fyrir í sjálfri bókinni.

Sem fyrr segir munum við selja Svarfdælasýsl á útgáfuhófunum þremur. Við systkinin verðum einnig með hana til sölu, þá verður hún til sölu á vefnum og loks mun hún fást í Eymundsson.

Athugasemdir