Tónleikar Jóns og Pasi í Bergi

Í september munu Pasi og Jón leika á alls níu tónleikum á Íslandi og í Finnlandi. Þann 13. september kl. 20:00 munu þeir leika í Bergi menningarhúsi.

Hugmyndi að þeirra samstarfi kviknaði á fundi norrænu einleikarafélagana sem haldin var í Reykjavík af lefni 70 ára afmælis Félags íslenskra tónlistarmanna. Pasi og Jóni fannst spennandi að setja sónötur Brahms og Strauss saman á efnisskrá. Sérstök tenging tónskáldanna við píanóleikarann og hljómsveitarstjórann Hans von Bülow og eins að verkin voru fullkláruð svo að segja nánast á sama tíma var í sögulegu ljósi forvitnilegt. Báðar sónöturnar eru í síð-rómantískum stíl, dramatískar og stórfenglegar í framsetningu. Sónatan í d moll op. 108 var síðasta fiðlusónatan sem Brahms samdi. Hann vann að verkinu á árunum 1886 til 1888 og frumflutti ásamt Jenö Hubay í Budapest árið 1888. Verkið tileinkaði hann vini sínum Hans von Bülow sem var lærimeistari R. Strauss í hljómsveitarstjórn. R. Strauss samdi sína einu fiðlusónötu á árunum 1887-88. Hún er sinfónísk að gerð, löng og þéttofin og sýnir stórbrotinn rithátt Strauss fyrir þessa hljóðfæraskipan. Í verki Jóns Nordal Systurnar í Garðshorni vísar hann í þjóðsöguna um systurnar Ásu, Signýju og Helgu. Ása og Signý eru latar og þeim farnaðist ekki vel. Helga er hins vegar viljug að hjálpa þeim sem biðja hana. Það verður til þess að henni gengur allt í haginn, og giftist að lokum konungssyni eins og í öllum góðum ævintýrum. Finnska tónskáldið, fiðluleikarinn og hljómsveitarstjórinn Jaakko Kuusisto samdi verkið Valo árið 2009. Sterk áhrif frá impressíonisma og minimalisma má greina í verkinu sem er kraftmikið og óhamið.

Efnisskrá: Richard Strauss: Fiðlusónata op. 18 í Es dúr Jón Nordal: Systur í Garðshorni Jaakko Kuusisto: Valo Johannes Brahms: Fiðlusónata nr. 3 í d moll


Pasi Eerikäinen fiðla: Pasi Eerikäinen (f. 1979) er fjölhæfur, ástríðufullur fiðluleikari, einleikari og kammermúsikant. Andstæður einkenna spilamennsku hans núna en Eerikäinen er mjög opinn fyrir ólíkum tónlistarstefnum og uppákomum þar sem nútímatónlist skipar mikinn sess í lífi hans. Hann er þekktur sem fiðluleikari í tónlistarhópunum: Tjango!, Ruuskanen & Railio Strings og Riku Niemi Orchestra. Hann leikur að staðaldri í Uusinta Chamber Ensemble og hefur hljóðritað margoft fyrir Finnish Broadcasting Company. Pasi Eerikäinen hefur verið konsertmeistari í Turku Philharmonic Orchestra, Chamber Orchestra of Lapland og Oulu Symphony. Pasi Eerikäinen lauk meistaraprófi frá Sibeliusarakademíunni árið 2006. Fiðlunám sitt hóf hann í Kobe í Japan þar sem hann fæddist. Þegar hann fluttist til Finnlands með fjölskyldu sinni hóf hann nám í Rauma tónlistarskólanum sem nemandi Raoul Gothóni og Åke-Erik Renqvist. Síðar hélt hann áfram námi hjá Eeva Koskinen í tónlistarskóla Tampere. Í Sibeliusarakademíunni voru kennarar hans Petri Aarnio og Mi-Kyung Lee. Eerikäinen er undir miklum áhrifum frá ýmsum kennurum svo sem Chaim Taub, Ana Chumachenko, Gerhard Schulz, Hagai Shaham, Tuomas Haapanen, Ilmo Ranta, Liisa Pohjola og Ralf Gothóni. Eerikäinen fékk listamannalaun frá finnska ríkinu árið 2011. Hann er félagi í Einleikarafélagi Finnlands. Frekari upplýsingar má finna á vefslóðinni: www.eerikainen.fi Jón Sigurðsson píanó Jón Sigurðsson hefur á síðustu árum flutt ýmiss konar tónlist en þó hafa rómantísk- og nútímaverk alltaf skipað stóran sess hjá honum á tónleikum. Á síðasta ári lék hann víða bæði á Íslandi, í Evrópu og í Bandaríkjunum. Hann hefur leikið einleik í píanókonsertum eftir Beethoven og flutt margs konar kammertónlist á liðnum árum.

Jón starfar sem meðleikari og tónlistarkennari í Reykjavík. Jón Sigurðsson hefur lokið meistaraprófi í píanóleik frá Arizona State University í Bandaríkjunum, burtfarar- og píanókennara- prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og meðleikarnámi frá Söngskóla Sigurðar Demetz. Auk þess hefur hann kynnt sér Funktionale Methode. Helstu kennarar Jóns hafa verið Helga Laxness, Halldór Haraldsson, Erika Haase, Gerrit Schuil, og Caio Pagano og hefur hann tekið þátt í opnum kennslustundum hjá Ruth Slenczynska, Edith-Picht Axenfeld og Roger Woodward. Jón hefur haldið einleikstónleika reglulega og komið fram með fjölmörgum hljóðfæraleikurum og söngvurum. Polarfonia Classics hefur gefið út tvo geisladiska þar sem Jón leikur m.a. verk eftir Scriabin og Barber og svo sónötur eftir Strauss, Schumann og Mozart. Jón er félagi í FÍT. Nánari upplýsingar er að finna á: www.jonsigurdsson.com

Athugasemdir