Þótt þú langförull legðir - sunnudagssíðdegi í Bergi

Þótt þú langförull legðir - Sunnudagssíðdegi í Bergi

Kór Dalvíkurkirkju ferðaðist um Íslendingaslóðir í Kanada og Norður-Dakóda á síðasta sumri. Kórinn söng víða, svo sem á elliheimilum og þar sem fólk af íslenskum ættum kom saman af þessu tilefni.

Næstkomandi sunnudag, 25. mars, ætlar kórinn að vera með dagskrá í menningarhúsinu Bergi í samvinnu við Þjóðræknisfélag Íslands. Þar mun kórinn syngja undir stjórn Hlínar Torfadóttur mörg af þeim lögum sem voru á söngskránni í Kanadaferðinni um leið og stuttar frásagnir verða úr ferðinni og sýndar myndir. Þá mun Almar Grímsson fyrrverandi forseti Þjóðræknisfélagsins segja frá byggðum Íslendinga í Norður-Ameríku og starfsemi félagsins. Þess má geta að Almar var fararstjóri í ferð kórs Dalvíkurkirkju.

Dagskráin er við það miðuð að fólk geti átt notalegt síðdegi í Bergi við fróðleik og fjölbreyttan söng. Dagskráin hefst klukkan 16 og eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Athugasemdir