Næstu skref í Menningarhúsinu Bergi

Næstu skref í Menningarhúsinu Bergi

Kæru vinir - síðustu dagar hafa verið tíðindamikilir í húsinu og langar okkur að upplýsa ykkur um gang mála.

Aðalfundur Menningarfélagsins Bergs ses. var haldinn í Bergi Menningarhúsi 28. maí. Þar fóru fram hefðbundin aðalfundastörf auk þess sem kosið var í nýja stjórn. Svanfríður Jónasdóttir gaf ekki kost á sér til frekari stjórnarsetu og líkur þar með hennar 10 ára setu í stjórn Menningarfélagsins. Henni eru færðar sérstakar þakkir fyrir metnaðarfulla og skapandi vinnu sem hún hefur unnið í þágu félagsins. Nýja stjórn skipa Freyr Antonsson (formaður), Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson (gjaldkeri) og Dóróþea Reimarsdóttir (ritari). Varamenn eru Íris Hauksdóttir og Kristjana Arngrímsdóttir.

Blágrýti ehf sem starfrækt hefur veitingahúsið Basalt café+bistro í Bergi síðastliðin þrjú ár, hefur sagt upp samningum við Menningarfélagið Berg og fór fram á að losna frá skyldum sínum frá og með 1. Júní. Stjórn menningarfélagsins Bergs féllst á að uppsögnin þeirra tæki gildi frá og með 1. júní síðastliðnum og er ákvörðunin tekin í gagnkvæmri sátt stjórnar og eigenda Blágrýtis.
Menningarfélagið Berg og framkvæmdarstjóri hússins þakkar öllum starfsmönnum Blágrýtis innilega fyrir gæfuríkt samstarf og óskar þeim velfarnaðar í nýjum verkefnum.

Stefnt er á að Menningarfélagið Berg ses. viðhaldi góðu þjónustustigi í húsinu í sumar en biðlar til fólks að sýna því biðlund meðan unnið sé að framtíðaráformum. Það er stefnan að ávalt verði hægt að ganga að kaffi og léttum veitingum vísum á opnunartíma hússins. Nú þegar er hafin vinna næstu skrefa og mótun framtíðarstefnu Bergs Menningarhúss.

Íbúar sveitafélagsins verða vel upplýstir um gang mála en mikilvægur liður í áframhaldandi upplýsingaflæði til íbúa er m.a. að framvegis verða allar fundargerðir Menningarfélagsins birtar á heimasíðu Bergs og sérstök tilkynning um það sett á fésbókarsíðu menningarhússins og heimasíður Dalvíkurbyggðar.

Nú stendur yfir myndlistasýning Vignis Þórs Hallgrímssonar - við hvetjum að sjálfsögðu alla til að líta við og þiggja kaffi í boði hússins. 

Við óskum ykkur góðrar helgar og biðjum ykkur að fylgjast vel með næstu daga þegar frekari upplýsingar birtast hér á heimasíðunni og fésbókarsíðu hússins. 

Athugasemdir