Dagskrá aprílmánaðar í Bergi

Vorið er á næsta leiti og páskarnir nálgast. Það verður ýmislegt um að vera í Bergi í apríl, kvikmyndasýning, tónleikar, sushikvöld og fleira og vonandi finna flestir eitthvað við sitt hæfi.

Um síðastliðna helgi var Svarfdælskur mars haldinn hátíðlegur. Meðal annars var opnuð sýning í Bergi um gömul hús á Dalvík en sýningin er hluti af Húsakönnunarverkefni byggðarsafnsins Hvols. Sýningin stendur í það minnsta út maí.

Kaffihúsið verður opið frá kl. 14:00-18:00 páskadagana eða frá 5.-9. apríl. Bókasafnið verður hins vegar lokað á skírdag, föstudaginn langa og á annan í páskum.

Annars er dagskrá aprílmánaðar eftirfarandi:

Svartur á leik
Miðvikudagurinn 4. apríl kl. 20:30
Íslenska kvikmyndin Svartur á leik verður sýnd í Bergi í samvinnu við ZikZak kvikmyndir og Filmus Production. Athugið að myndin er bönnuð 16 ára og yngri. 

Örn og Ösp á tónleikum
Laugardagurinn 7. apríl kl. 21:00
Systkinin Örn og Ösp á Tjörn bjóða upp á hugljúfa tóna og góða stemmningu á tónleikum í Bergi. Flutt verður tónlist úr ýmsum áttum. Miðaverð er 1500 og ekki er tekið við kortum.

Sushi kvöld
Fimmtudagurinn 12. apríl kl. 19:00
Kaffihúsið endurtekur hér að nýju Sushi kvöld að hætti Júlla Júl. Boðið verður upp á blandaðan sushi-disk 10 eða 14 bita. Pantanir í síma 460-4000/899-3049 fyrir 10 apríl

Sögustund á bókasafninu
Föstudagurinn 13. apríl kl. 16:00
Lestrarstund fyrir bókaorma en það er Þuríður Sigurðardóttir (Þura) sem les að þessu sinni.

Vorlauf—Kammerkórinn Veirurnar
Föstudaginn 13. apríl kl. 20:30
Vorlauf er yfirskrift tónleika með ljóðaívafi en það er Sönghópurinn Veirurnar og Eyþór Árnason ljóðskáld sem sameina krafta sína í þessari dagskrá. Stjórnandi sönghópsins er Guðbjörg R. Tryggvadóttir. Efnisskráin er fjölbreytt, íslensk og erlend sönglög m.a. eftir Gunnstein Ólafsson, Jórunni Viðar, og Andrew Lloyd Webber. Elma Atladóttir sópransöngkona syngur einsöngslög eftir Tryggva M. Baldvinsson.

Bókasafnsdagurinn haldinn hátíðlegur
Þriðjudaginn 17. apríl
Bóksafnsdagurinn haldinn hátíðlegur í Bókasafni Dalvíkurbyggðar. Þá verður bryddað upp á bókmenntagetraun, val á 100 bestu barnabókunum, gestum boðið að skoða húsnæði safnsins og fl.Einnig er í gangi ljósmyndakeppni í tilefni dagsins en þema keppninnar eru „lestur er bestur“

Sumadagurinn fyrsti
Fimmtudagurinn 19. apríl
Lokað á Kaffihúsinu vegna einkasamkvæmis

Athugasemdir