Aðventurölt og markaður í Bergi

Aðventurölt og markaður í Bergi

Þó að ástandið í samfélaginu hafi ekki gert okkur neitt auðvelt fyrir síðustu daga, vikur og mánuði (og ár) ætlum við þó að halda okkar árlega Aðventurölt í Dalvíkurbyggð. Í Menningarhúsinu Bergi verðum við með Aðventumarkað þar sem 10 einstaklingar kynna og selja fjölbreytt úrval af allskyns varningi. Að auki verður opið á kaffihúsinu Cafe Berg þar sem hægt verður að setjast að snæðingi eða glöggi og versla einstakar vörur úr framleiðslu Syðra Holts. 

Markaðurinn er opinn frá 19.00-22.00. 

Vegna takmarkana í samfélaginu verður markaðurinn með eðlilegum takmörkunum. Gestir ganga inn í gegnum aðalinnganginn og geta þá annaðhvort farið inn á markaðssvæðið eða á kaffihúsið. Þetta gerum við til að skipta húsinu upp í tvö sóttvarnarhólf. Þegar fólk fer úr út húsinu þá fer það í gegnum annan útgang sem leiðir það út og í gegnum pallinn. Þannig ætlum við að skapa smá hringrás um húsið og forðast óþarfa hópamyndanir. 

Allir gestir og söluaðilar í húsinu skulu bera andlitsgrímur og við biðjum að sjálfsögðu alla að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum. En fyrst og fremst óskum við þess að geta átt með ykkur gefandi og góða aðventustund þar sem barnsleg jólagleðinn fær lausan tauminn. 

 

Við vekjum athygli á því að margar verslanir eru með opnun í kvöld og ókeypis aðgangur er á Byggðasafnið Hvoli, heitt kakó og jólastemming. 

 

Tökum röltið, hittumst með 1 -2 metra bili og njótum saman <3

Sjáumst í kvöld!

Athugasemdir