Þann 9. febrúar næstkomandi hefði Jóhann Pétursson Svarfdælingur orðið 100 ára en Jóhann var um tíma talinn vera hæsti maður heims. Af því tilefni stendur byggðasafnið Hvoll fyrir málþingi í Bergi menningarhúsi, á afmælisdegi Jóhanns, en þar verður fjallað um þennan óvenjulega mann frá ýmsum hliðum.
Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, forstöðumaður byggðasafnsins Hvols á veg og vanda að dagskránni en auk hennar munu fimm fyrirlesarar halda erindi. Jón Hjaltason sagnfræðingur, höfundur bókarinnar Of stór fyrir Ísland, og Óskar Þór Halldórsson frá Jarðbrú, sem gert hefur heimildarmynd um hann, fjalla um æfi hans og aðstæður. Pálmi Óskarsson læknir ræðir um ástæður fyrir líkamsvexti hans og Unnur Erla Ármannsdóttir segir frá verkefni sem hún vinnur að þessa dagana og lýtur að því að endurskapa Jóhannsstofu í þrívídd fyrir tölvuskjá. Hermína Gunnþórsdóttir mun síðan fjalla um hvernig það er að tilheyra þessum svokölluðu "hinum" í samfélagi manna en Hermína er lektor og sérfræðingur í skóla án aðgreiningar.
Samkór Svarfdæla flytur á málþinginu tónlistaratriði úr dagskrá byggðri á æfi Jóhanns en sú dagksrá verður flutt á vordögum. Þá verður myndum af Jóhanni varpað upp á tjald.
Að lokinni dagskrá stendur gestum til boða að skoða Jóhannsstofu en hún er til húsa á byggðasafninu Hvoli.
Málþingið verður, eins og áður sagði, á afmælisdegi Jóhanns þann 9. febrúar kl. 13:30 í Bergi menningarhúsi.
Hvoli við Karlsrauðatorg | 620 Dalvík | Sími: 460 4928 | netfang: hvoll@dalvikurbyggd.is