Byggðasafnið Hvoll

Saga byggðasafnsins

Kristján Ólafsson er ástríðusafnari og árið 1973 byrjaði hann að safna gömlum munum úr byggðinni og þá aðallega úr Svarfaðardal. Árið 1987 voru munirnir orðnir um 1600 og geymdir inni á heimili hans og í geymslum víðs vegar. Mikill áhugi var á því að opna safn og réðst Dalvíkurbær í að kaupa húsið Hvol undir safnkostinn. Kristján gaf bænum allt safn sitt og var þá kominn grunnur að því safni sem hér er. Lionsmenn gerðu upp safnhúsið og hópur áhugamanna setti upp sýningarnar í húsinu. Markmiðið var að varðveita einkenni gamla samfélagsins. Allir munir voru skráðir í aðfangabók. Fljótt bættust við munir sem tilheyrðu Jóhanni K. Péturssyni en fjölskylda Jóhanns gaf safninu þá og styrkti auk þess safnið með peningagjöf. Síðan bættust náttúrugripirnir við safnið en það var hagleiksmaðurinn Steingrímur Þorsteinsson sem stoppaði upp flest öll dýrin í þeirri deild

Byggðasafnið Hvoll var formlega opnað 12. desember 1987. Vorið 2002 var gerð stofnskrá fyrir safnið og drög að söfnunarstefnu þess. Nú er alfarið unnið eftir safnastefnu sem Menntamálaráðuneytið boðar.

Í 4. gr. safnalaga nr. 106/2001 er safn skilgreint þannig: " safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar."

Hvoll

Jón Emil Stefánsson (Jonni í Hvoli) var fyrsti heiðursborgari Dalvíkurbæjar. Hann var húsasmíðameistari og byggði fjölda húsa á Dalvík og nágrenni á langri starfsævi. Hvol byggði hann árið 1930 og bjó þar alla tíð. Í húsinu voru tvær íbúðir. Árið 1934 bætti hann geymslu við húsið en það er 250 fermetrar, jarðhæð, miðhæð og ris.

Hvoll

Eftir jarðskjálftann 1934 var húsið styrkt með því að setja stálbita utan á húsið, upp úr og niður úr. Það er svo steypt utan yfir bitana. Þetta var gert til að koma í veg fyrir að húsið myndi hrynja í næsta skjálfta.

Sýningar safnsins

Smelltu á heiti sýninganna til að fá nánari upplýsingar.

1. hæð:

Hefðbundið minjasafn

Náttúrugripasafn

Jarðskjálftasýning

2. hæð:

Minningasöfn: Jóhannsstofa og Kristjánsstofa

Mannlíf og munir í Dalvíkurbyggð

3. hæð:

Hið daglega líf
Barnabyggð

Opnunartími:

Sumaropnun:
Opið alla daga
1. júní - 30. ágúst kl. 10:00 - 17:00

Vetraropnun:
Eftir samkomulagi við forstöðumann: 460 4931/8483248