Byggðasafnið Hvoll 

 

Jón Emil Stefánsson (Jonni í Hvoli) var fyrsti heiðursborgari Dalvíkurbæjar. Hann var húsasmíðameistari og byggði fjölda húsa á Dalvík og nágrenni á langri starfsævi. Hvol byggði hann árið 1930 og bjó þar alla tíð. Í húsinu voru tvær íbúðir. Árið 1934 bætti hann geymslu við húsið en það er 250 fermetrar, jarðhæð, miðhæð og ris. 

Hvoll

 

Eftir jarðskjálftann 1934 var húsið styrkt með því að setja stálbita utan á húsið, upp úr og niður úr. Það er svo steypt utan yfir bitana. Þetta var gert til að koma í veg fyrir að húsið myndi hrynja í næsta skjálfta.

 

Saga byggðasafnsin

Kristján Ólafsson er ástríðusafnari og árið 1973 byrjaði hann að safna gömlum munum úr byggðinni og þá aðallega úr Svarfaðardal. Árið 1987 voru munirnir orðnir um 1600 og geymdir inni á heimili hans og í geymslum víðs vegar. Mikill áhugi var á því að opna safn og réðst Dalvíkurbær í að kaupa húsið Hvol undir safnkostinn. Kristján gaf bænum allt safn sitt og var þá kominn grunnur að því safni sem hér er. Lionsmenn gerðu upp safnhúsið og hópur áhugamanna setti upp sýningarnar í húsinu. Markmiðið var að varðveita einkenni gamla samfélagsins. Allir munir voru skráðir í aðfangabók. Fljótt bættust við munir sem tilheyrðu Jóhanni K. Péturssyni en fjölskylda Jóhanns gaf safninu þá og styrkti auk þess safnið með peningagjöf. Síðan bættust náttúrugripirnir við safnið en það var hagleiksmaðurinn Steingrímur Þorsteinsson sem stoppaði upp flest öll dýrin í þeirri deild

Byggðasafnið Hvoll var formlega opnað 12. desember 1987.

Vorið 2002 var gerð stofnskrá fyrir safnið og drög að söfnunarstefnu þess. Nú er alfarið unnið eftir safnastefnu sem Menntamálaraðuneytið boðar.

Í 4.gr.safnalaga nr. 106/2001 er safn skilgreint þannig: " safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar."

 

Sýningar safnsins

 

Hefðbundið minjasafn - 1. hæð

Munir safnsins koma flestir frá heimilum á Dalvík, Svarfaðardal og Árskógssandi. Þarna eru ýmis áhöld og innanstokksmunir frá fyrri tíð sem að vitna um þróun verkmenningar á Dalvík og nágrenni og sögu byggðarinnar. Einning eru hér haganlega gerðir skrautmunir af ýmsum toga unnir af hagleiksfólki á svæðinu.

minjasafn

 

Náttúrugripasafn - 1. hæð.

Enn er að verið að vinna í uppsetningu á þessum hluta safnsins.

Náttúrugripirnir í eigu Byggðasafnsins skipta hundruðum. Hluti af þeim gripum má sjá á sýningunni og má þar nefna fuglaherbergi sem sýnir hóp uppstoppaðra fugla, ásamt skemmtilegum textum um þá eftir Hjörleif Hjartarson. Í örðum hluta herbergisins má m.a sjá hinn sívinsæla Grænlands-ísbjörn sem ávalt vekur ánægju gesta, sérstaklega yngri kynslóðina.

Það var hagleiksmaðurinn Steingrímur Þorsteinsson sem tók að sér að stoppa upp dýrin og mætti segja Steingrímur sé einn helsti stuðningsmaður safnsins frá upphafi með gjöfum sínum og sjálfboðavinnu við uppstoppun fugla og dýra.

náttúrugripasafnið

 

Jarðskjálftasýning - 1. hæð.

Þann 2. júní 1934 reið mikill jarðskjálfti yfir Dalvík og nærsveitir. Talið er að skjálftinn hafi verið um 6,3 á richter og að upptök hans hafi verið undir hafsbotninum rétt utan við Dalvík. Gríðarlegar skemmdir urðu á húsum og mannvirkjum á Dalvík og nágrenni og má segja að í þorpinu hafi nánast hvert einasta hús stórskemmst eða eyðilagst í hamförunum. Þykir ganga kraftaverki næst að ekki urðu slys á fólki í þessum mestu náttúruhamförum sem orðið hafa á sögulegri tíð hér um slóðir. Nokkrir snarpir eftirskjálftar fylgdu aðalskjálftanum og létu margir íbúar þorpsins fyrir berast í tjöldum fram eftir sumri bæði af ótta við eftirskjálfta og vegna þess að húsnæði var óíbúðarhæft. Stjórnvöld í landinu brugðust skjótt við með að meta og bæta skaðann og var í kjölfarið byggður fjöldi rammgerðra steinhúsa sem nú mynda kjarna Dalvíkurbæjar.

Þann 2. júní 2004 opnaði jarðskjálftasýning á safninu. Sýningin byggir á minningum fólks sem upplifði skjálftann fyrir 70 árum. Hún byggir á textum og ljósmyndum og má líta á sýninguna sem innsetningu í rými.

jarðskjálfstasýning

 

Minningasöfn - 2. hæð.

Tveir þjóðþekktir svarfdælingar eiga hvor sínar stofur á safninu.

Þar ber að nefna Jóhannsstofu sem tileinkuð er Jóhanni Kr. Péturssonar Svarfdæling. Jóhann  fæddist á Akureyri 9. febrúar árið 1913 en óx úr grasi í Brekkukoti í Svarfaðardal. Þegar kom fram á unglingsár tók hann vaxtarkipp og um tvítugt var hann orðinn 234 cm á hæð og vóg þá 163 kg. Í þá tíð var meðalhæð íslenskra karlmanna um 176 cm. Um tíma var Jóhann talinn hæsti maður í heimi. Jóhannsstofa leggur áherslu á að kynna manninn Jóhann en ekki einungis risann eins og hann var oft kenndur við. Í stofunni er hægt að tylla sér niður og horfa á heimildamynd um hann eða skoða hvernig myndir hann tók sjálfur. Þarna er hægt að máta eftirlíkingar af skóm Jóhanns sem eru nr. 62, mæla hæð sína við hans og kaupa eftirlíkingu af hring hans.

jóhannsstofa

 

Kristjánsstofa er stofa sem tilenkuð er fyrrum forseta Íslands Kristjáns Eldjárns. Fjölskylda Kristjánsgaf safninu marga persónulega muni hans við þetta tækifæri. Kristján Eldjárn fæddist að Tjörn í Svarfaðardal 6.desember 1916 og var næstelsta barn Þórarins Kr. Eldjárns, bónda og kennara þar og konu hans Sigrúnar Sigurhjartardóttur frá Urðum í Svarfaðardal. Kristján var fornleifafræðingur að mennt og hann stóð fyrir mörgum merkum fornleifarannsóknum í Svarfaðardal. Kristján var einnig þjóðminjavörður Þjóðminjasafns Íslands áður en hann var kjörinn forseti Íslands 30. júní 1968 og gegndi því embætti þrjú kjörtímabil, til 1980. Eftir það var Kristján skipaður prófessor í íslenskri fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Kristjánsstofa

 

 

 

Mannlíf og munir í Dalvíkurbyggð - 2. hæð.

Sýningin á 2. hæð er nokkurs konar sérsýning undir yfirskriftinni Munir og mannlíf í Dalvíkurbyggð. Þar gefur m. a. að líta muni eftir einstaka lista- og handverksmenn úr Svarfaðardal, af Dalvík og Árskógsströnd en einnig muni tengda kirkjum og helgihaldi, lækningum og heilsugæslu, útgerð og fiskvinnslu ofl.

 

salur

Þetta rými er stórt og getur vel rúmað hóp gesta og er tilvalið í móttökur, fyrirlestra og allsskonar uppákomur í skemmtilegu umhverfi. 
Fyrir frekari spurningar eða ábendingar varðandi uppákomur má hafa samband við Björk Eldjárn forstöðumann bókasafnsins, annaðhvort í síma: 4604930 eða í gegnum tölvupóstinn bjork.eldjarn@dalvikurbyggd.is

 

Hið daglega líf - 3. hæð. 

Á þriðju hæðinni má sjá ýmsa innanstokksmuni sem sýna inní daglegt líf og störf á heimilum fyrra tíma. Bæði má sjá  spunavél, vefstól, rokka og ýmiss konar áhöld sem notuð voru við heimilisiðnað. Hér geta gestir fengið að þreifa á íslensku ullinni og finna mismuninn á togi og þeli og fengið að prófa sig áfram að spinna á rokk eða snældu. 

hið daglega líf

 

Barnabyggð - 3. hæð

Í öðru risinu á þriðju hæð er rými sem hefur fengið nafnið "Barnabyggð". Rýmið er svokallað "snerti-rými" börn þar sem þau fá  frelsi til þess að snerta og leika sér með eldri og nýrri muni sem tengjast að einhverju leiti sýningum safnsins.

Barnabyggð